Viðskipti erlent

Norski olíusjóðurinn eykur hlutabréfakaup

Norski fáninn blaktir við olíuborpall.
Norski fáninn blaktir við olíuborpall.
Knut Kjær forstjóri Norska olíusjóðsins tilkynnti í vikunni að sjóðurinn myndi auka hlutabréfakaup um 50 prósent. Knut sagði á ráðstefnu ABP lífeyrissjóðsins í Hollandi að hlutdeild sjóðsins í hlutabréfum yrði aukin úr 40 í 60 prósent af eignum. Þetta kom fram á vef Landssambands lífeyrissjóða. Forstjórinn sem hefur stýrt sjóðnum í 10 ár lagði áherslu á að lífeyrissjóðir sem langtímafjárfestar ættu að líta á sig sem eigendur hlutabréfa frekar en lánadrottna á skuldabréfamarkaði. Þá lagði hann áherslu á að endurmeta þyrfti allar fjárfestingar. Norski olíusjóðurinn er í eigu norska ríkisins, en þingið tók ákvörðunina um aukningu hlutabréfakaupa. Forstjórinn sagði mikilvægt að endurmeta allar fjárfestingar og að héðan í frá yrðu allar tekjur sem kæmu í sjóðinn vegna olíunnar notaðar til að fjárfesta í hlutabréfum. Frá árinu 1997 hefur sjóðurinn fjárfest 100 prósent í skuldabréfum og smám saman aukið áhættu í fjárfestingum. Meðalávöxtun á tímabilinu hefur verið 4,6 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×