Erlent

Talibanar leystu fjóra úr haldi

Talibani með talstöð og vopn í Afghanistan.
Talibani með talstöð og vopn í Afghanistan. MYND/AFP

Talibanar leystu fjóra starfsmenn alþjóðlegrar nefndar Rauða krossins úr haldi í dag sem rænt var í Afghanistan fyrir þremur dögum. Engin skilyrði voru sett fyrir lausn fjórmenninganna. Franz Rauchenstein yfirmaður nefndarinnar í Afghanistan sagði að lausn mannanna væri mikill léttir fyrir Rauða krossinn og fjölskyldur mannanna.

Fjórmenningunum, tveimur afghönum, Makedóníumanni og manni frá Mjanmar, var rænt í Wardak héraði suðvestur af Kabúl.

Einn gíslanna sagði að gíslatökumennirnir hefðu komið vel fram við þá. Þeir hefðu ekki verið yfirheyrðir og hafi búið við sömu skilyrði og talibanarnir sjálfir. Þeir hafi bæði fengið mat og vatn.

Hann sagði afgönskum fréttamönnum að þeir hefðu verið látnir ganga lengi í fjöllunum áður en þeir komu að húsinu sem þeim var haldið í.

Gíslarnir hafi ekki verið hræddir.

Þá sagði hann að þeir hafi séð þýska fangann sem verið hefur í haldi talibana um nokkurn tíma. Hann hafi getað gengið, að öðru leiti viti þeir ekki um aðstæður hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×