Viðskipti erlent

Slagurinn um OMX tvöfaldar verðmætið

Hlutabréf í OMX-kauphallarsamstæðunni hafa hækkað um 115% á árinu vegna baráttu um yfirráð yfir henni. Nasdaq-hlutabréfamarkaðurinn og Borse Dubai hækkuðu í dag tilboð sitt í OMX, sem rekur sjö kauphallir á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum, um 15%, úr 230 sænskum krónum á hlut í 265. Tilboðið hljóðar upp á 305 milljarða króna og nýtur stuðnings stjórnenda OMX.

Fjallað er um málið í Hálf fimm fréttum Kaupþings banka. Þar segir að meðal þeirra sem hafa selt bréf sín í OMX eru Investor, Nordea og helstu stjórnendur OMX.

QIA, félag í eigu stjórnvalda í Katar, jók hlut sinn í OMX upp í tíu prósent á dögunum og setti samkomulag Borse Dubai, sem fer nú með 47,6% hlutafjár í OMX, og Nasdaq í uppnám. Áform QIA eru óljós en í síðustu viku skoruðu forsvarsmenn félagsins á hluthafa í OMX að hafna eldra tilboði Nasdaq/Borse Dubai.

Er ekki ósennilegt að QIA hafi séð sér leik á borði með kaupum í OMX og ætli sér að taka út myndarlegan skammtímahagnað á fjárfestingu sinni. Samkvæmt samkomulaginu kaupir Kauphöllin í Dubai OMX og framselur hana til Nasdaq fyrir um 120 milljarða króna. Í staðinn fær Borse Dubai 28% í Kauphöllinni í Lundúnum (LSE) Dubai og tæplega fimmtungshlut í Nasdaq.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×