Viðskipti erlent

Alexandra í stjórn svissnesks lyfjafyrirtækis

Alexandra greifynja, fyrrverandi eiginkona Jóakims Danaprins, hefur leitað aftur út á vinnumarkaðinn eftir því sem danska viðskiptablaðið Börsen greinir frá.

Þar kemur fram að hún muni taka sæti í svissneska lyfjafyrirtækinu Ferring Pharmaceuticals. Það vinnur meðal annars að þróun ýmissa lyfja gegn kvensjúkdómum og ófrjósemi. Haft er eftir talskonu lyfjafyrirtækisins að fyrirtækið vilji sýna aukna samfélagslega ábyrgð og Alexandra búi yfir reynslu af störfum fyrir góðgerðasamtök. Hún muni sem stjórnarmaður vinna að samfélagslegum málefnum.

Alexandra er ekki ókunn störfum í viðskiptalífinu því áður en hún giftist Jóakim prins vann hún að markaðsmálum hjá fyrirtæki í Hong Kong. Hún hefur síðan meðal annars verið verndari Unicef í Danmörku og dönsku blindrasamtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×