Viðskipti innlent

Kjalar fær fulltrúa í stjórn HB Granda

MYND/Valgarður

Fulltrúi HB Granda í stjórn fyrirtækisins víkur fyrir manni Kjalar ehf sem er í eigu Ólafs Ólafssonar hjá Samskipum og á þriðjung í fyrirtækinu. Stjórn HB Granda er að öðru leiti óbreytt, en Kjalar hefur ekki haft fulltrúa í stjórn fyrr en nú.

Fundurinn verður haldinn í húsakynnum fyrirtækisins að Norðurgranda klukkan 14. Fimm bjóða sig fram til stjórnar auk eins varamanns.

Hjörleifur Jakobsson forstjóri Kjalar er meðal frambjóðenda til stjórnar, en Þórhallur Helgason hjá Granda víkur fyrir honum. Í vor keypti Kjalar ehf 33,3 prósenta hlut í fyrirtækinu af Kaupþingi, sem nú á einungis 0,1 prósent í HB Granda.

Stjórn fyrirtækisins ákvað fyrr í mánuðinum að falla frá fyrirætlunum um að reisa nýtt fiskiðjuver á Akranesi, en í frétt fyrirtækisins segir að Faxaflóahafnir hafi ekki talið sér fært að uppfylla óskir félagsins, meðal annars um gerð nýrrar fiskihafnar á Akranesi.

Fyrirtækið lagði beiðni fyrir Faxaflóahafnir að fá að byggja frystigeymslur fyrir afurðir sínar í Reykjavíkurhöfn og mun því halda uppbyggingu áfram í Reykjavík.

Jónas Guðbjörnsson fjármálastjóri Kjalars segir um eðlilega breytingu að ræða í stjórninni þar sem fyrirtækið sé nú með þriðjung hlutar í fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×