Viðskipti erlent

Heimsmarkaðsverð á gulli nálgast fyrra met

Heimsmarkaðsverð á gulli hefur stigið ört síðustu vikur þar sem taugaóstyrkir fjárfestar hafa reynt að leita í öruggt skjól með fjármuni sína. Samkvæmt frétt í danska viðskiptablaðinu Börsen nálgast verð á gulli nú fyrra met. Verðið er komið í 707 dollara fyrir únsuna en fór hæst í 730 dollara í maí á síðasta ári.

 

 

"Gul fær stöðu sem örugg fjárfesting þegar óróleiki er á fjármálamörkuðum. Og samhliða því nú er dollarinn veikur og olían dýr. Sögulega séð er það staða sem gullið nýtur góðs af," segir Jacob Vinding Jensen í greiningardeild Jyske Markets í samtali við Börsen.

Nýbirtar tölur um atvinnumarkaðinn í Bandaríkjunum hafa einnig ýtt undir hækkandi gullverð. Tölurnar voru nokkuð verri, og atvinnuleysi meira, en menn bjuggust við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×