Viðskipti erlent

Abramovich kaupir Airbus A380

Airbus A380 risavélin á Keflavíkurflugvelli.
Airbus A380 risavélin á Keflavíkurflugvelli. MYND/Ellert Grétarsson

Milljarðamæringurinn Roman Abramovich, eigandi enska knattspyrnuliðsins Chelsea, ætti að geta haft rúmt um sig í ferðum sínum um heiminn á næstu misserum því hann hefur fest kaup á Airbus A380 sem er stærsta farþegavél heims.

Eftir því sem franska stórblaðið Le Figaro greinir frá er Abramovich fyrstur einstaklinga til þess að fjárfesta í slíkri vél en hún rúmar allt að 800 manns. Abramovich mun hafa þurft að reiða fram um 300 milljónir dollara fyrir gripinn, í kringum 20 milljarða króna. Hann þarf þó ekki að seilast djúpt í vasa sína því eignir hans eru metnar á yfir 1300 milljarða króna.

Fyrstu Airbus A380 vélarnar verða afhentar nú í haust en þess má geta að slík vél hefur komið hingað til lands til lendingaræfinga á Keflavíkurflugvelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×