Viðskipti erlent

Heimsmarkaðsverð á hveiti hækkar um 30%

Heimsmarkaðsverð á hveiti hefur hækkað um 30% í ágúst og segir blaðið The Financial Times að þetta sé mesta hækkun á hveiti í einum mánuði síðan í ágúst 1973. Það er einkum mikil eftirspurn í Bandaríkjunum eftir þessari vöru sem hefur keyrt verðið upp.

Verð á hveiti sló met á markaðinum í París nú fyrir helgina er tonnið seldist á 272 evrur eða um 25.000 kr. Og á markaðinum í Chicago fór tunnan af hveiti í fyrsta sinn í sögunni yfir 8 dollara eða 480 kr. Vikuhækkunin vestanhafs nemur 10% og í Evrópu um 15%

Fjármálasérfræðingar óttast nú að neysluverðsvísitölur víða um heim muni hækka töluvert sökum þessarar þróunnar og þar með valda aukinni verðbólgu þar sem matvælaframleiðendur muni brátt leiða þessa hækkun út í matvælaverð sitt til neytenda.

Reiknað er með að verð á hveiti haldist hátt áfram þar sem kaupendur hafa áhyggjur af slæmum fregnum af uppskerunni á suðurhveli jarðar eins og til dæmis Ástralíu. Þar hefur veðurfar spillt hveitiökrum. Samhliða þessu er búist við að Rússar muni draga úr útflutningi sínum til að halda stöðugleika á heimamarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×