Innlent

24 þúsund fjölskyldur í Reykjavík fá frístundakort í byrjun september

Tuttugu og fjögur þúsund fjölskyldur í Reykjavík fá frístundakort í byrjun september sem niðurgreiða íþrótta og tómstundastarf barn að hluta. Kortin eru óháð tekjum foreldra og gilda fyrir öll börn á aldrinum 6-18 ára.

Frístundakort Reykjavíkurborgar komast í gagnið í byrjun september. Kortin eru einskonar styrkur sem greiðir niður æskulýðs, tómstunda og íþróttastarf barna að hluta. Fyrir áramót fær hvert barn 12000 krónur til umráða en eftir áramót hækkar upphæðin í 25000 krónur. Stefnt er að því að styrkurinn verði 40000 krónur 2009. Bæklingi um frístundakortin var dreift inn á öll heimili í dag.

Björn Ingi Hrafnsson formaður Borgarráðs og ÍTR segir að foreldrar þurfi einungis að skrá sig á reykjavík. is til að fá kortin í hendur. Hann segir dæmi um að börn af erlendum uppruna og frá efnalitlum heimilum geti ekki stundað íþrótta og tómsstundastarf í eins miklum mæli og önnur börn. Tómstunda og íþróttastarf geti skipt tugum þúsunda á ári hverju. Hann vonast til að það breytist með tilkomu kortanna. Björn Ingi segir hættu á því að íþróttafélög og önnur félög hækki þátttökugjöldin þegar kortin komi í gagnið. Hann segir að borgaryfirvöld fylgist grannt með því á næstu mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×