Innlent

Dæmdur nauðgari vill áfrýjun vegna heilaskaða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Pétursson er margdæmdur ofbeldismaður.
Jón Pétursson er margdæmdur ofbeldismaður.
Jón Pétursson, sem tvívegis hefur verið dæmdur fyrir nauðgun, hefur óskað eftir því að máli hans verði áfrýjað. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Jóns, vill að dómkvaddir matsmenn meti sakhæfi hans og hvort refsing geti borið árangur.

Jón var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. júní fyrir að hafa ráðist á sambýliskonu sína á hrottafenginn hátt í byrjun desember síðastliðinn. Jón sló konuna hnefahöggi í andlitið, dró hann hana á hárinu inn í svefnherbergi. Hann skipaði henni að afklæðast og nauðgaði henni. Hann barði hana ítrekað með krepptum hnefa og flötum lófa, ógnaði henni með kjöt­exi og búrhnífi og sló hana með flötum blöðum axarinnar og hnífsins. Misþyrmingarnar stóðu yfir í hálfan sólarhring.

Þann 26 apríl síðastliðinn dæmdi Hæstiréttur Jón Pétursson í fimm ára fangelsi fyrir brot gegn tveimur konum. Hann var sakfelldur fyrir að hafa ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína. Það þótti sannað að hann hafi slegið hana margsinnis og sparkað í hana. Þá hafi hann ruðst í heimildarleysi inn í íbúð hennar, ráðist á hana með höggum og spörkum og dregið um á hárinu. Þá var hann dæmdur fyrir að hafa haldið fyrrverandi unnustu sinni í átta tíma á heimili hennar. Hann sparkaði í hana og sló, dró hana um á hárinu, sló höfði hennar við gólfið og nauðgaði henni í þrígang.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Jóns, vill að rannsakað verði með taugasálfræðilegu mati hugsanlegur framheilaskaði sem Jón telur sig hafa fengið er hann varð fyrir slysi í Egyptalandi og hugsanlegar afleiðingar þess skaða.

Ríkissaksóknari hafnar kröfu Jóns og segir að geðrannsókn hafi áður farið fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×