Viðskipti innlent

Sá óþekkti græddi 444 milljónir á Straumi í gær

Stjórnendur Straums/Burðaráss færðu óþekktum einstaklingi  eða einstaklingum 444 milljónir að gjöf í gær með því að selja honum bréf í bankanum á gjafverði.
Stjórnendur Straums/Burðaráss færðu óþekktum einstaklingi eða einstaklingum 444 milljónir að gjöf í gær með því að selja honum bréf í bankanum á gjafverði. MYND/ANTON BRINK

Straumur/Burðarás fjárfestingabanki seldi í gærmorgun stóran hluta sinna eigin bréfa í bankanum fyrir 10,23 milljarða. Ekki hefur fengist uppgefið hver kaupandinn er en sá óþekkti einstaklingur eða einstaklingar hljóta að brosa hringinn. Þegar markaðurinn lokaði í gærdag hafði hann eða þeir grætt 444 milljónir vegna mikilla hækkana bréfanna.

Straumur/Burðarás seldi tæplega 75% af sínum eigin bréfum eða 5,31% af heildarbréfum bankans á genginu 18,6 sem er 0,2 hærra en lægsta gengi bréfanna undanfarin mánuð og sama gengi og var á bréfunum 29. janúar á þessu ári. Þegar markaðurinn lokaði í gær hafði gengi bréfanna hækkað um 4,2% eða upp í 19,40. Þá var 5,31% hluti óþekkta mannsins eða mannanna kominn upp í 10,67 milljarða.

Fjármálafólk velti vöngum yfir því í gær af hverju forráðamenn Straums/Burðaráss kusu að selja svo stóran hluta bréfa bankans í sjálfum sér á jafn lágu gengi og raun ber vitni á meðan mikill órói er á markaði.

Hlutahafar í Straumi/Burðarás, sem Vísir ræddi við í gær, voru allt annað en sáttir við þennan gjörning forsvarsmanna bankans og telja hann hafa rýrt verðmæti hans verulega.

Stærsti hluthafi Straums/Burðaráss er Samson Global Holdings sem er í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar sem er jafnframt stjórnarformaður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×