Innlent

Mikill viðbúnaður vegna Menningarnætur

Slökkvilið, lögregla og björgunarsveitir hafa töluverðan viðbúnað vegna Menningarnætur sem fram fer á laugardag. Lögregla mun taka sérstaklega hart á unglingadrykkju.

Að venju er búist við að miklum mannfjölda í miðborg Reykjavíkur á laugardag þegar Menningarnótt verður sett. Aðgerðastjórn almannavarna á höfuðborgarsvæðinu sér um að samræma öryggismálin og verða viðbragðsaðilar með sameiginlega bækistöð og útkallslið við menntamálaráðuneytið við Arnarhól. Þar verða sjúkra-, slökkvi- og lögreglubílar ásamt sjúkraskýli og aðstöðu til að annast týnd börn. Þá verður slysadeild Landspítalans með aukaviðbúnað þegar líður á kvöldið og nóttina, sambærilegt við það skipulag sem er á gamlárskvöldi.

Fjölmörgum götum verður lokað, annars vegar í tengslum við Reykjavíkurmaraþon og hins vegar Menningarnótt og stórtónleika á Miklatúni. Umferðardeild lögreglunnar mun sinna eftirliti með lokun gatna og hvetur lögregla almenningi til þess að sýna lipurð og þolinmæði í umferðinni því búast megi við töfum.

Menningarnótt lýkur eins og undanfarin ár með flugeldasýningu og verða umferðarljós á Sæbraut, Hringbraut, Miklubraut og Bústaðavegi tekin úr sambandi að henni lokinni og þá mun lögregla stjórna umferð.

Lögreglan vill brýna það sérstaklega fyrir foreldrum að skilja börn sín ekki eftir í miðbænum þegar dagskránni lýkur með flugeldasýningu. Lögreglan mun taka mjög hart á drykkju unglinga og vonast eftir góðri liðveislu foreldra í því. Tvö ungingaathvörf verða í bænum á laugardag, annað í Foreldrahúsi að Vonarstræti 4b og hitt í íþróttahúsi Kennaraháskólans. Þau verða opin frá miðnætti, eða fyrr ef þurfa þykir, og fram eftir nóttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×