Viðskipti erlent

Kínverjar segjast ekki munu ráðast á dollarann

Óli Tynes skrifar
Kínverski Seðlabankinn, í Peking.
Kínverski Seðlabankinn, í Peking.

Kínverjar reyndu í dag að slá á orðróm um að þeir hyggist selja gífurlega af dollurum úr gjaldeyrisvarasjóði sínum. Gjaldeyrisvarasjóður Kína er sá stærsti í heimi, ein komma þrjár trilljónir dollara. Langstærstur hluti hans er í bandaríkjadollurum. Kínverjar gætu því haft stórfelld áhrif á gengi dollarans og raunar á peningamarkaði um allan heim.

Í viðtali við Xinhua fréttastofuna sagði ónafngreindur embættismaður kínverska seðlabankans að bandarískir dollarar og skuldabréf væru mikilvægur hluti af gjaldeyrisforða landsins. Hann sagði að Kína væri ábyrgur fjárfestir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Viðtalið við kínverska bankamanninn var sett á áberandi stað á fréttavef ríkisstjórnarinnar. Er litið á það sem enn frekari staðfestingu þess að Kínverjar vilji róa fjárfesta með því að koma því skýrt til skila að þeir ætli að halda í dollara sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×