Innlent

Myndir úr safni Björgólfsfeðga til sýnis

Eggert er einn vinsælasti listmálari á Íslandi um þessar mundir.
Eggert er einn vinsælasti listmálari á Íslandi um þessar mundir.

Listasafn Reykjavíkur undirbýr sýningu á verkum Eggerts Péturssonar listmálara sem verður á Kjarvalsstöðum og hefst 31. ágúst næstkomandi. Soffía Karlsdóttir, deildarstjóri markaðs- og kynningarmála Listasafnsins, segir að um tímamótasýningu sé að ræða. Sýningin spanni allan feril Eggerts og sýnd verði verk sem hafi ekki sést áður. Þar af eru mörg verk í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thor Björgólfssonar.

Að sögn Soffíu eru flest verkin sem verða á sýningunni í eigu einstaklinga og fyrirtækja, en einnig komi nokkur úr öðrum söfnum. Soffía segir að lykilverk á sýningunni komi frá feðgunum Björgólfi Thor Björgólfssyni og Björgólfi Guðmundssyni, en Eggert sé í miklu uppáhaldi hjá þeim. Þá komi fjölmörg verk frá Landsbankanum.

Eggert Pétursson er einn þekktasti listmálari á Íslandi í dag og hafa verk hans selst á milljónir króna. Hann er þekktur fyrir blómamyndir og myndir af íslenskri náttúru. Soffía segir að verk Eggerts séu unnin af mikilli nákvæmni og séu allt að þrjú ár í vinnslu. Soffía segir að bók um Eggert og feril hans verði gefin út um leið og sýningin hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×