Innlent

Neytendastofa annist verðlagseftirlit

Neytendastofa á að annast allt verðlagseftirlit á matvöru segir forstjóri Neytendastofu og telur skynsamlegast að opinber stofnun annist slíkt eftirlit. Hann segir aðferðir ASÍ við verðlagseftirlit úreltar og vill fá matvöruverslanir til liðs við sig svo unnt sé að vinna með rafrænar upplýsingar beint frá verslununum.

Verslunareigendur, Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu hafa gagnrýnt verðlagskannanir ASÍ að undanförnu. ASÍ hefur haldið því fram að lækkun á matarverði hafi ekki skilað sér að fullu til neytenda eftir skattalækkanirnar 1.mars síðastliðinn. Samtök verslunar og þjónustu og Samtök atvinnulífsins telja að Hagstofa Íslands eigi eingöngu að annast verðlagseftirlit. Tryggvi Axelsson forstjóri Neytendastofu telur hins vegar að Neytendastofa eigi að taka að sér verðlagseftirlit á matvöru. Hlutlaus stofnun eigi að taka að sér slíkt eftirlit.

Samtök atvinnulífsins vilja að teknar verði upp nýjar aðferðir við kannanir á verðlagi í matvörumörkuðum og benda á að um nokkurra ára skeið hafi verið safnað rafrænum upplýsingum um sölu í matvöruverslunum. Samtökin telja að með því að hagnýta slíkar upplýsingar fengist nákvæmari og betri mynd af verðlagi á þessum markaði. Tryggvi tekur í sama streng og telur aðferðir ASÍ við verðlagseftirlit úreltar og ekki gefa nákvæma mynd af matvöruverði. Taka eigi upp nýjar aðferðir sem verði safnað með rafrænum upplýsingum frá matvörumörkuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×