Innlent

Lítil truflun á starfsemi Norðuráls vegna mótmæla

Engin röskun varð á starfsemi álvers Norðuráls á Grundartanga vegna mótmæla samtakanna Saving Iceland. Mótmælendur lokuðu annarri aðkeyrslunni að álverinu með því að hlekkja sig við veginn. Starfsmannastjóri álversins segir ólíklegt að lögð verði fram kæra vegna mótmælanna. Talsmaður Saving Iceland boðar frekari aðgerðir af hálfu samtakanna.

„Mótmælunum er lokið í bili," sagði Snorri Páll Jónsson, talsmaður Saving Iceland, í samtali við Vísi. „Við vildum vekja athygli á því að þessu landi er stefnt í hættu með þessum mengandi iðnaði."

Snorri sagði ennfremur að samtökin undirbúi nú frekari mótmæli gegn stóriðju hér á landi.

Um tuttugu mótmælendur frá samtökunum Saving Iceland lokuðu annarri aðkeyrslunni að álveri Norðuráls að Grundartangi laust eftir klukkan fjögur í dag. Mótmælendurnir hlekkjuðu sig við veginn og stoppuðu þeir alla umferð í um hálfa klukkustund. Þá klifruðu fimm mótmælendur upp í krana við álverið.

Lögreglan mætti á svæðið til að tryggja að mótmælin færu friðsamlega fram. Ekki kom til handalögmála milli lögreglu og mótmælenda og enginn var handtekinn að sögn lögreglunnar á Akranesi. Þó var kallað á sjúkrabíl til að tryggja öryggi þeirra sem klifruðu upp í kranann.

Skúli Skúlason, starfsmannastjóri álversins á Grundartanga, sagði í samtali við Vísi að mótmælin hefðu ekki truflað starfsemi álversins. Hann segir ólíklegt að lögð verði fram kæra vegna málsins. „Þeir trufluðu lítið og ollu engu tjóni. Við vorum aðallega fylgjast með og tryggja öryggi allra á meðan þeir voru á svæðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×