Innlent

Þrjátíu og einum starfsmanni sagt upp hjá Ramma hf.

Þrjátíu og einum starfsmanni Rækjuvinnslunnar Ramma hf á Siglufirði verður sagt upp á næstu vikum og verður vinnslan lögð niður í október. Forstjóri fyrirtækisins segir lausatök ríkisvaldsins á stjórn efnahagsmála og hávaxtastefnu Seðlabanka Íslands vera útflytjendum fjandsamleg.

Starfsmönnum Rækjuvinnslunar Ramma hf var í dag tilkynnt að fyrirtækið hygðist leggja niður vinnsluna í lok október. Starfsfólkið fær send uppsagnarbréf fyrir mánaðarlok. Í tilkynningu fyrirtækisins segir að tap á rekstri rækjuvinnslunnar hafi verið umtalsvert síðustu ár. Tapið hafi numið rúmlega 300 milljónum á undanförnum tveimur og hálfu ári.

Helstu ástæður fyrir taprekstrinum séu hátt gengi íslensku krónunnar, hrun rækjuveiða við Ísland og erfið staða á fiskmörkuðum. Á sama tíma væri vaxandi rækjuveiði- og vinnsla í Kanada og Evrópusambandið hafi nú ákveðið að veita kanadískum rækjuframleiðendum verulegar tollaívilnanir frá því sem verið hefur. Ljóst sé að það muni veikja íslenska rækjuiðnaðinn enn frekar. Þá sendir félagið stjórnvöldum tóninn. Í yfirlýsingu félagsins segir:

Lausatök ríkisvaldsinns við stjórn efnahagsmála samhliða mikilli uppbyggingu stóriðju og hávaxtastefna Seðlabanka Íslands eru, og hafa verið, útflutningsatvinnuvegunum fjandsamleg.

Ólafur Helgi Marteinsson forstjóri Ramma hf. segist harma að þurfa grípa til þessara aðgerða en um ekkert annað sé að ræða. Hann segir Í ljósi þess að mikilll kvótaniðurskurðar á þorski sé framundan sé þeim ekki tækt að halda vinnslunni áfram vegna tekjutaps. Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um 130 þúsund tonna aflamark í þorski þýði að þorskkvóti Ramma hf. skerðist um tæp tvö þúsund tonn á næsta fiskveiðiári.

Skammt er síðan Rækjuvinnslan Miðfell á Ísafirði sagði upp fjörutíu starfsmönnum og stuttu síðar varð fyrirtækið gjaldþrota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×