Viðskipti innlent

William Fall ráðinn forstjóri Straums-Burðaráss

William Fall, fyrrverandi forstjóri Alþjóðasviðs Bank of America, hefur verið ráðinn forstjóri Straums-Burðaráss fjárfestingabanka, og tekur hann við af Friðriki Jóhannssyni sem hefur verið forstjóri bankans frá því í júní 2006.

Fram kemur í tilkynningu frá Straumi-Burðarási að Fall hafi starfað sem forstjóri Alþjóðasviðs Bank of America frá árinu 2001 þar sem hann hafi haft yfirumsjón með og borið ábyrgð á allri starfsemi bankans utan Bandaríkjanna, í alls 18 löndum. Hann kom til starfa hjá Bank of America árið 1995 en starfaði þar áður fyrir Westpac Banking Corporation og Kleinwort Benson.

Haft er eftir Björgólfi Thor Björgólfssyni, stjórnarformanni Straums-Burðaráss, að Fall sé mikill fengur fyrir bankann. Hann hafi til að bera víðtæka reynslu úr starfi sínu hjá Bank of America þar sem hann hafi leitt alþjóðlega uppbyggingu á einum stærsta banka veraldar. „Ráðning Williams sem forstjóra Straums-Burðaráss markar mikilvæg tímamót í umbreytingu bankans í fjárfestingabanka sem er samkeppnishæfur á alþjóðamörkuðum og með sterka stöðu á Norðurlöndum. Ég er sannfærður um að William er rétti maðurinn til að leiða bankann til enn frekari vaxtar."

Þá er Friðriki Jóhannssyni þökkuð góð störf fyrir bankann en hann tók við af Þórði Má Jóhannessyni í fyrra eftir átök í hlutahafahópi Straums. Friðrik mun starfa hjá Straumi næstu mánuði til að tryggja að forstjóraskiptin gangi greiðlega fyrir sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×