Sport

Bjarne Riis viðurkennir lyfjanotkun

MYND/AP

Danski hjólreiðakappinn Bjarne Riis viðurkenndi í dag að hann hefði notað stera þegar hann sigraði í þekktustu hjólreiðakeppni heims Tour de France, árið 1996. Hann er fyrstur hjólreiðakappa til þess að viðurkenna það.

Riis sagði á blaðamannafundi í dag að hann hefði notað hormónið EPO á árunum 1993-1998 til þess að bæta frammistöðu sína. „Ég keypti það sjálfur og notaði. Þetta varð hluti af lífi mínu," sagði Riis.

Hann sagðist engu að síður vera stoltur af árangri sínum. „Ég greini frá þessu nú til þess að stuðla að því að menn hafi rétt við í íþróttinni í framtíðinni," sagði Bjarne Riis, en hjólreiðarnar hafa undanfarin ár einkennst af fréttum að lyfjamisnotkun.

Þá ýjaði Riis að því að stjórnandi þýska hjólreiðaliðsins Telekom, Walter Goodefroot, hefði horft fram hjá því að liðsmenn neyttu ólöglegra lyfja til að bæta árangur sinn. Meðal þeirra sem hjóluðu fyrir liðið á sama tíma og Riis var Þjóðverjinn Jan Ullrich sem sigraði í Tour de France árið 1997. Hann hefur alla tíð neitað ásökunum um lyfjanotkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×