Handbolti

Lemgo lagði Gummersbach á útivelli

Alfreð Gíslason var súr á svip er hann horfði á Lemgo sigra sína menn í dag.
Alfreð Gíslason var súr á svip er hann horfði á Lemgo sigra sína menn í dag. MYND/Getty

Lemgo vann mjög góðan sigur á Íslendingaliðinu Gummerbach í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 32-29. Áhorfendur Sýnar fengu að sjá mjög góðan handboltaleik sem fór fram í hinni stórglæsilegu Köln-Arena fyrir framan tæplega 20 þúsund manns. Íslendingarnir í liðunum létu mismikið að sér kveða í dag.

Guðjón Valur Sigurðsson átti frábæran leik fyrir Gummersbach og skoraði 11 mörk, mörg hver utan af velli. Róbert Gunnarsson komst hins vegar ekki á blað, enda í strangri gæslu varnarmanna Lemgo þann tíma sem hann spilaði. Hann spilaði hins vegar varnarleikinn mjög vel. Sverre Jakobsson spilaði varnarleikinn um tíma en náði sér ekki á strik.

Hjá Lemgo skoraði Ásgeir Örn Hallgrímsson 2 mörk og Logi Geirsson eitt. Markahæstur Lemgo var Markus Baur með 8 mörk og Filip Jicha var með 7 mörk.

Lemgo er komið með 39 stig í 5. sæti deildarinnar en Gummersbach er áfram í 3. sæti með 42 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×