Innlent

Næstum 20 stiga hiti í Neskaupstað

Þessi unga stúlka nýtti tækifærið og skellti sér í sund í blíðunni fyrir austan.
Þessi unga stúlka nýtti tækifærið og skellti sér í sund í blíðunni fyrir austan. MYND/Fjarðabyggð
Sannkallað sumarveður er nú víða á Austurlandi en samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands hefur hitinn farið hæst í 19,6 stig í Neskaupstað nú um klukkan eitt. Sömu sögu er að segja af Kollaleiru en þar hefur hitinn farið stigvaxandi í morgun og mældist einnig mest 19,6 stig um eittleytið . Enn fremur er um 15 stiga hiti á Seyðisfirði og um 16 stig á Eskifirði og Egilsstöðum.

Þær upplýsingar fengust á Veðurstofu Íslands að ástæðan fyrir þessum hlýindum austan lands væri hlýtt loft yfir landinu og stíf vestanátt. Hæð suður af landinu dældi hlýja loftinu hingað og þegar það gengi yfir hálendið hlýnaði það hratt þegar það kæmi niður á láglendi.

Ekki er þó útlit fyrir að hlýindin vari lengi því á morgun er gert ráð fyrir að það fari að kólna, þó sérstaklega á norðanverðu landinu en veðrið verður þá væntanlega skrást á suðausturlandi. Á föstudaginn langa er svo gert ráð fyrir köldu veðri á norðan- og austanverðu landinu og að hið algenga páskahret geri vart við sig. Reiknar veðurstofan með að kalt verði í næstu viku. Vorið virðist því aðeins ætla að láta bíða eftir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×