Innlent

Væri nær að biðja stofnendur afsökunar

Stofnendur Iceland Express segja að forstjóra Samkeppniseftirlitsins væri fremur sæmandi að biðja þá afsökunar en að reyna að klóra yfir úrræðaleysi stofnunarinnar með ótrúverðugum rökum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stofnendunum sem segja að dráttur eftirlitisins á að afgreiða kæru á hendur Icelandair vegna undirboða hafi hrakið rekstur Iceland Express í þrot og þeir neyðst til að selja það á slikk.

Félagið kærði Icelandair snemma árið 2004 en úrskurður kom ekki fyrr en í siðustu viku. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir hins vegar að erfiðlega hafi gengið að afla gagna hjá Icelandair og síðan hafi nýir kjölfestufjárfestar komið inn í Iceland Express.

Það segja stofnendurnir að sé argasti útúrsnúningur því þessir svonefndu kjölfestufjárfestar hafi einmitt verið þeir sem keyptu félagið á slikk. Annar þeirra, Pálmi Haraldsson, hafi á sínum tíma verið stór hluthafi í Icerlandair og í stjórn þess.

Í viðtali við Fréttastofu Stöðvar tvö í morgun benti Pálmi á að hann hafi ekki verið í stjórn Icelandair þegar kaupin voru gerð og að mistök stjórnenda Iceland Express hafi verið að reka Jóhannes Georgsson, eina manninn í hópnum, sem eitthvert vit hafði á flugrekstri.

Eftir hafi staðið reynslulausir einstaklingar í forstjóraleik og félagið hafi verið orðið svo illa statt að það hafi ekki lengur getað greitt vörsluskatta. Stofnendurnir hefðu því lent í fangelsi ef hann og Jóhannes Kristinsson hefðu ekki keypt félagið og lagt því til fjármuni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×