Innlent

Íslenska krónan er dýr og á undanhaldi

Íslenska krónan er of dýr og fyrirtæki taka í vaxandi mæli stöðu með evrunni. Líkur eru á að þau muni einnig hefja skráningu hlutabréfa sinna í evrum. Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, efast um að krónan eigi framtíð fyrir sér og er enn þeirrar skoðunar að Ísland verði komið í Evrópusambandið innan tveggja kjörtímabila.

Halldór Ásgrímsson var gestur í hádegisviðtalinu á gamlársdag. Þar bar krónan og staða hennar gagnvart evrunni m.a. á góma.

"Það sem skiptir okkur mestu máli núna að mínu mati og í framtíðinni, það er hvernig við getum haldið sjálfstæðum gjaldmiðli í þessari miklu alþjóðavæðingu og frelsi á peningamörkuðum. Er það líklegt að við getum rekið íslensku krónuna til langrar framtíðar? Ég hef miklar efasemdir um það, sagði Halldór Ásgrímsson.

Halldór ítrekaði einnig fyrr spá sína um að Ísland verði komið í Evrópusambandið fyrir árið 2015 eða nákvæmlega eftir tvö kjörtímabil. En svo virðist sem atvinnulífið sé komið langt á undan stjórnmálamönnunum. Samningurinn um Evrópska efnahagslífið tryggði íslenskum fyrirtækjum að Evrópumarkaðnum, einum stærsta markaði heims, og vaxandi fjöldi þeirra gerir viðskipti sín í evrum. Það er mun ódýrara fyrir útflutningsfyrirtækin.

Hörður Arnarson, forstjóri Marels, segir að hjá Marel sé það einkum vegna þess að fyrirtækið er með lang stærstan hluta tekna sinna í erlendir mynt. "Um 98 prósent teknanna koma erlendis frá og þar er evran sterkust. Og það er í raun lang best fyrir fyrirtæki að gera upp í starfsræsklu gjaldmiðlinum, eða þeirri mynt þaðan sem menn hafa tekjurnar," segir Hörður.

Íslenska kauphöllin varð hluti af Norrænu kauphöllinni um áramót og um leið má segja að markaðssvæði íslenskra fyrirtækja hafi stækkað. Reikna má með að einhver þeirra muni skrá hlutabréf sín í evrum á árinu til að auka áhuga erlendra fjárfesta.

Hörður bendir á að fjárfestar sem ætli að kaupa íslensk hlutabréf þurfi fyrst að kaupa sér íslenskrar krónur. Síðan þurfi þeir að fylgjast með sveiflunum upp og niður. Ef þeir ætla svo að selja bréfin verði þeir aftur að selja með viðskiptakostnaði og áhættu. Þetta sé mjög óhagkvæmt fyrir þá fjárfesta. Krónan sé einnig allt of dýr fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki og íslenskan almenning.

Straumur Burðarás fékk nýlega sérstaka heimild frá Seðlabankanum, fyrstur íslenskra banka, til að hafa aukinn gjaldeyrisjöfnuð, sem þýðir að bankinn gerir upp í evrum, enda meira en helmingur tekna og eigna bankans í erlendri mynt.

Friðrík Jóhannsson, forstjóri Straums Burðaráss, segir þessa ákvörðun tekna með langtíma hagsmuni bankans og hluthafa að leiðarljósi.

"Við stefnum að því að verða leiðandi norrænn fjárfestingabanki og þess vegna teljum við þessa breytingu nauðsynlega, segir Friðrik. Þessi breyting muni væntanlega einnig höfða til erlendra fjárfesta og auka áhuga þeirra á bankanum.

Þá eru fyrirtæki farin að auglýsa verð á vöru sinni í evrum. Þannig mátti sjá slíka auglýsingu frá Kraftvélum í Fréttablaðinu á gamlársdag. Fyrirtækið selur og kaupir þungavélar. Ævar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir þetta gert til að komast hjá gengisáhættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×