Innlent

Lá í tuttugu mínútur á réttum kili áður en henni hvolfdi

TF Sif var dregin til lands í nótt og flutt í flugskýli við Reykjavíkurflugvöll til rannsóknar. Vonast er til að upplýsingar úr flugrita hennar varpi ljósi á atburðinn. Sjónarvottar segja að þyrlan hafi verið í um tuttugu mínútur á réttum kili í sjónum áður en henni hvolfdi.

Rætt var um í gær að þyrlan hefði misst afl í lítilli hæð en Landhelgisgæslan vildi ekki staðfesta það í dag enda ekki leyfilegt sökum rannsóknarinnar. Áhöfnin gat skotið út neyðarflotum og lent mjúklega en þyrlunni hvolfdi hinsvegar um fimmtán til tuttugu mínútum eftir að hún var lent að sögn sjónarvotta. Fjórir menn voru um borð, þeir Sigurður Heiðar Wium flugstjóri, Jens Þór Sigurðsson flugmaður, Torben J. Lund stýrimaður og Daníel Hjaltason flugvirki. Mikil mildi var að ekki var verið að hífa neinn um borð í þyrluna þegar óhappið varð. Þrír bátar voru í sjónum og kom áhöfnin boðum til þeirra áður en hún lenti, það voru Björgunarskipið Einar Sigurjónsson, frá björgunarsveit Hafnarfjarðar, sem bjargaði áhöfninni úr sjónum, báturinn Fiskiklettur og Gúmbjörgunarbátur.

Fjöldi fólks úr Hafnarfirði fylgdist með frá ströndinni allt frá Hvaleyrarholti til Straumsvíkur og lögreglan þurfti að biðja fólk frá að hverfa til að björgunarmenn hefðu vinnufrið.

TF Sif var tryggð að fullu en talið er að verðmæti hennar nemi einum milljarði króna.

Dómsmálaráðherra tók á á móti áhöfn þyrlunnar í Straumsvík um níuleytið í gærkvöldi.

Björgunarstörfin í nótt fóru þannig fram að byrjað var á að setja sex lyftibelgi á vélina til að tryggja að hún flyti. Þá var hljóðritinn tekinn úr vélinni og flakið myndað að beiðni Rannsóknarnefndar flugslysa.

Kafarar aðstoðuðu við að taka þyrluspaðana af vélinni til að hægt væri að snúa henni í sjónum og dýpkunarprammi með krana úr Hafnarfirði sem kom á staðinn um hálf ellefu í gærkvöld og festi taug við snúningsásinn á þakinu dró þyrluna til hafnar í Hafnarfirði seint í nótt.

Þar var hún hífð upp á bíl og flutt í húsnæði á vegum Rannsóknarnefndar flugslysa.

Þyrlan kom til landsins árið 1985. Hún hefur áður lent í óhappi en henni var nauðlent á Snæfellsnesi fyrir rúmum sex árum þegar hún flauginn í loftókyrrð sem breytti stöðugleika hennar þannig að eitt eða fleiri blöð þyrlunnar komu við stélflötinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×