Viðskipti innlent

Stjórnin styður Novator

Sindri Sindrason, stjórnarmaður í Actavis, kynnti í gær ákvörðun stjórnarinnar að mæla með nýju tilboði Novators.
Sindri Sindrason, stjórnarmaður í Actavis, kynnti í gær ákvörðun stjórnarinnar að mæla með nýju tilboði Novators. MYND/Anton

Stjórn Actavis ráðleggur hluthöfum að samþykkja nýtt yfirtökutilboð Novators í félagið. Tilboðið hljóðar upp á 1,075 evrur á hlut, rúmar níutíu krónur. Það nemur um 187 milljörðum.

Stjórn Actavis mælir einróma með nýju yfirtökutilboði Novators, eignarhaldsfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, í allt hlutafé félagsins í A-flokki. Álitið byggir stjórnin á mati alþjóðlega fjárfestingarbankans JP Morgan sem fenginn var henni til ráðgjafar.

Nýtt tilboð hljóðar upp á 1,075 evrur á hlut. Það nemur rúmum níutíu krónum. Fyrra tilboðið nam 0,98 evrum á hlut. Því tilboði hafði stjórnin ráðið hluthöfum frá að samþykkja.

Björgólfur og aðilar honum tengdir eiga 38,5 prósent af útgefnum hlutabréfum í A-flokki. Miðað við nýtt tilboðsverð er hann tilbúinn til að greiða 187 milljarða króna fyrir það hlutafé sem eftir stendur, eða 61,5 prósent.

Tilboðinu fylgir sá fyrirvari að skyldi Novator ákveða að selja tíu prósent eða meira af hlut sínum, innan tólf mánaða frá því tilboðstíma lýkur, fái hluthafar sérstaka aukagreiðslu. Þannig myndi tilboðsgjafi „deila hlutfallslega með hluthöfum sem samþykktu yfirtökutilboðið mismun á hinu hærra tilboðsverði og söluverðinu“.

Sindri Sindrason, einn þeirra þriggja stjórnarmanna sem mátu tilboð Novators, segir þá klausu í tilboðinu ekki hafa ráðið úrslitum um samþykki stjórnarinnar. Hins vegar hefði tilboðið hugsanlega þurft að vera hærra ef hún hefði ekki fylgt með. „Þetta er trygging fyrir því að ef sala félagsins er í pípunum fái hluthafar sitt út úr sölunni líka. Okkur er sagt að svo sé ekki og við höfum enga ástæðu til að véfengja það.“ Sindri á von á því að flestir af stærstu hluthöfum félagsins muni fylgja ráðleggingum stjórnarinnar.

Nýja tilboðið er 19,6 prósentum hærra en gengi bréfa Actavis var þann 10. maí síðastliðinn, daginn áður en Novator tilkynnti um fyrirhugað yfirtökutilboð. Í yfirlýsingu frá Björgólfi Thor Björgólfssyni segir hann nýtt tilboð endurspegla verðmæti félagsins ríflega. „Það er ánægjulegt að stjórn Actavis og ráðgjafar hennar, JP Morgan, telja tilboðið áhugavert og sanngjarnt og að þessi óháði aðili, sem þekkir félagið mjög vel, skuli mæla með tilboðinu við hluthafa þess. Ég er ánægður að samstaða skuli vera að myndast um hvernig framtiðarhagsmunum Actavis sé best borgið.”

Novator mun að öllum líkindum birta nýja tilboðið formlega á mánudag. Frá og með þeim degi hafa hluthafar tvær vikur til að gera upp hug sinn.

Gengi bréfa í Actavis hækkaði um 1,72 prósent í Kauphöll Íslands í gær. Lokagengi var 88,50 krónur á hlut, tveimur prósentum undir nýju tilboði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×