Viðskipti erlent

Vonast eftir betra gengi evrópskra markaða

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

Vonir standa til að evrópskir markaðir rétti úr kútnum í dag, eftir að hlutabréf á Wall Street í New York í Bandaríkjunum hækkuðu í gær.

Markaðir í Evrópu hækkuðu lítillega í morgun. Dow Jones vísitalan hækkaði um 300 stig síðasta klukkutímann fyrir lokun kauphallarinnar í kjölfar orðróms um að seðlabankinn myndi lækka stýrivexti.

Markaðir lækkuðu þó enn í Asíu eftir opnun í morgun þrátt fyrir að seðlabanki Japans hafi í þriðja sinn í vikunni dælt fjármunum inn á markað, í þetta sinn jafnvirði 750 milljarða króna.

Japanskir fjárfestar hafa áhyggjur af því að útflutningur frá Asíu dragist saman vegna samdráttar í hagkerfi Bandaríkjanna. Þá eru vangaveltur uppi um að seðlabanki japans hækki stýrivexti þrátt fyrir ástand á markaði.

Þá hefur seðlabanki Ástralíu, í fyrsta sinn í sex ár, gripið inn í til varnar ástralska dollarnum, sem féll meira í gær gagnvart bandaríkjadollar en hann hefur gert síðan viðskipti með hann voru gefin frjáls fyrir 24 árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×