Viðskipti erlent

Tiffany og eBay í dómsmáli um falsaðar vörur

Tiffany og eBay eiga í dómsmáli sem hófst í bandarískum réttarsal í dag. Niðurstaða málsins gæti verið fordæmisgefandi um hvernig leysa eigi lögfræðilega álitaefni þegar falsaðar vörur eru boðnar til sölu á netinu.

Tiffany hóf málsókn gegn eBay árið 2004 og sakaði uppboðsvefinn um að setja kíkinn fyrir blinda augað þegar kom að sölu á fölsuðum vörum á vefnum. Á árunum 2003 til 2004 voru tveir af starfsmönnum Tiffany fengnir til að kaupa Tiffany silfurmuni á eBay. Aðeins 5% af þeim munum sem starfsmennirnir keyptu voru raunverulegar Tiffany vörur. Hitt voru falsanir eða eftirlíkingar. Í kjölfarið hætti eBay við uppboð á um 19.000 munum.

Við upphaf réttarhaldanna í dag sagði lögmaður eBay að uppboðsvefurinn eyddi sem svarar um 600 miljónum kr. á ári til að koma í veg fyrir að falsaðar vörur væru settar í sölu á vefnum. Og það væri hlutverk Tiffany, ekki eBay, að verja höfundarrétt sitt.

Lögmaður Tiffany aftur á móti sagði að eBay hefði neitað að taka ábyrgð á sölu á fölsuðum vörum á vef sínum og því væri fyrirtækið skaðabótaskylt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×