Viðskipti innlent

Bakkavör kaupir í Bretlandi

Bakkavör keypti breskt matvælafyrirtæki.
Bakkavör keypti breskt matvælafyrirtæki. MYND/VILHELM

Bakkavör Group hefur styrkt stöðu sína enn frekar í Bretlandi með kaupum á breska matvælafyrirtækinu Exotic Farm Produce sem selur

ferskt óskorið grænmeti sem og fersk tilbúin matvæli. Kaupin voru fjármögnuð úr sjóðum félagsins en kaupverðið er trúnaðarmál.

Fyrirtækið sérhæfir sig í sölu á heilu úrvalsgrænmeti og framleiðslu á fersku niðurskornu grænmeti, ýmiskonar salötum ásamt ferskum tilbúnum réttum og meðlæti. Viðskiptavinir Exotic Farm Produce eru leiðandi stórmarkaðir Bretlands. Fyrirtækið er staðsett í Lincolnshire í Bretlandi og er með um 370 starfsmenn.

Exotic Farm Produce Group verður hluti af Bakkavör Group frá kaupdegi en kaupin munu hafa óveruleg áhrif á afkomu félagsins á þessu ári.

„Exotic Farm Produce fellur vel að rekstri þeirra fyrirtækja sem fyrir eru í

eigu Bakkavör Group og koma kaupin til með að styrkja stöðu okkar enn frekar á sviði óskorins grænmetis sem og ferskra tilbúinna matvæla í Bretlandi. Þetta er vel rekið fyrirtæki með góðar horfur um framtíðarvöxt," segir Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, í tilkynningu sem send var Kauphöllinni í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×