Viðskipti innlent

Ekkert lát á aðflutningi vinnuafls

Ekkert lát er á aðflutningi erlends vinnuafls hingað til lands samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun. Fjöldi veittra atvinnuleyfa jókst verulega í maí eða um 54 % á milli ára sem bendir til þess að aukinni eftirspurn eftir vinnuafli sé svarað með aðflutningi vinnuafls frá öðrum löndum. Líklegt er að ekkert lát verði á aðflutningi vinnuafls meðan atvinnuleysi er í sögulegri lægð eða 1.1 % um þessar mundir. Þessar tölur eru enn ein vísbendingin um að mikil umframeftirspurn sé hér á landi. Það sést meðal annars á aukinni veltu á fasteignamarkaði. Þetta kemur fram í hálffimmfréttum Kaupþings.

Íslenska hagkerfið hefur vaxið mikið á síðustu árum og sem dæmi jókst það um 17% á árunum 2003 til 2005. Svona vaxtahraða er erfitt að viðhalda án þess að verðbólga láti á sér kræla og algerlega ómögulegt án innflutnings erlends vinnuafls. Erlendum ríkisborgurum búsettum hér á landi hefur fjölgað mikið síðustu ár. Um síðustu áramót voru 18.652 erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi eða 6% af heildamannfjölda á landinu. Inn í þeim tölum eru ekki þeir 5600 erlendu ríkisborgara sem fengið hafa íslenskt ríkisfang síðustu 16 árin.

Pólverjar eru nú um 2% landsmanna og þá eru ótaldir þeir sem hlotið hafa íslenskt ríkisfang. Mikill kippur kom í aðflutning Pólverja til landsins árið 2004. Á sama ári gengu þeir í ESB og fengu aðgang að vinnumörkuðum Evrópska Efnahagssvæðisins. Það skýrir að miklu leyti aukninguna. Vöxtur hefur orðið í öllum hópum aðfluttra erlendra ríkisborgara síðan 2000 að Norðurlandabúum undanskildum. Hlutfall þeirra hér á landi hefur verið tiltölulega stöðugt undanfarin 17 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×