Viðskipti innlent

Álag á skuldatryggingar bankana hefur margfaldast

Álag á skuldatryggingar íslensku viðskiptabankanna hefur hækkað mikið undanfarna mánuði og er nú hærra en áður hefur sést. Hefur það margfaldast frá því í sumar.

Í dag er 5 ára tryggingarálag Kaupþings komið upp í 367 pkt, álag Landsbankans er í 211 pkt og Glitnis í 271 pkt. Skuldatryggingarálag fjármálafyrirtækja hefur almennt farið hækkandi í heiminum frá því í sumar þegar áhrifa undirmálslánakreppunnar fór að gæta með tilheyrandi lausafjárþurrð og vaxandi áhættufælni á mörkuðum.

Morgunkorn Glitnis fjallar um málið og þar segir að frá sumarbyrjun, áður en undirmálskreppan braust út, hefur álagið á íslensku viðskiptabankana margfaldast. Þann fyrsta júní síðastliðinn stóð álag Kaupþings í 29 pkt, Landsbankans í 19 pkt og Glitnis í 24 pkt.

 

Verðið á skuldatryggingum er að öllu jöfnu notað sem mælikvarði á það traust sem bankarnir njóta á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði. Því lægra sem álagið er því betra, enda endurspeglar álagið trú fjárfesta á því að fjármálafyrirtæki geti staðið við skuldbindingar sínar.

Af því leiðir að fjármögnun reynist ódýrari þegar álagið er lágt. Hafa verður í huga að markaður fyrir skuldatryggingar íslensku bankana er lítill og óskilvirkur, og því nauðsynlegt að taka ofangreindum tölum með talsverðum fyrirvara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×