Viðskipti innlent

Viðskipti stöðvuð í Kauphöllinni

Viðskipti hafa verið stöðvuð með hlutbréf í OMX-kauphöllinni norrænu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef kauphallarinnar og sagt að frétt sé væntanleg fyrir opnun markaða í fyrramálið.

Greint er frá því á sænska viðskiptavefnum Dagens Industri að orðrómur sé um að Kauphöllin í London, LSE, hyggist leggja fram kauptilboð í OMX. Tilboðið hljóði upp á 190 krónur sænskar á hlut, eða um 1.725 íslenskar krónur. Enn fremur kemur fram hjá Dagens Industri að barátta sé í uppsiglingu hjá LSE og Nasdaq-kauphöllinni í Bandaríkjunum um OMX.

Kauphöllin í London reyndi fyrir sex árum að kaupa OMX en varð ekki kápan úr því klæðinu.

Fréttastofa Reuters bætir því við að orðrómur hafi verið á kreiki um að stjórnir OMX-samstæðunnar og Nasdaq hafi átt í samrunaviðræðum í síðasta mánuði og var Nasdaq sagt hafa lagt fram yfirtökutilboð í OMX upp á23 milljarða sænskra króna, jafnvirði 221 milljarðs íslenskra króna. Talsmaður OMX vísaði orðróminum á bug og sagði stjórnina eiga í viðræðum við nokkrar kauphallir um samstarf á ýmsum sviðum.

Gengi hlutabréfa í OMX-samstæðunni hefur hækkað um 43 prósent það sem af er þessu ári. Þar af um 3,2 prósent í dag og stóð það í 180 sænskum krónum á hlut áður en lokað var fyrir viðskipti í kauphöllum samstæðunnar á Norðurlöndunum og í Eystasaltsríkjunum.

Talsvert hefur verið um samstarf og samruna kaupahalla víða um heim síðastliðin tvö ár en með þeim er horft til þess að lækka fjármagnskostnað og opna félögum sem skráð eru í einni kauphöll dyr inn á aðra markaði. Er skemmst að minnast þess að kauphöllin í New York í Bandaríkjunum keypti samevrópsku kauphöllina Euronext í fyrra eftir stranga baráttu við þýsku kauphöllina í Frankfurt. Þá keypti OMX-samstæðan keypti rekstur Kauphallar Íslands seint á síðasta ári.

Auk þessa gerði Nasdaq ítrekaðar tilraunir til að yfirtaka rekstur bresku kauphallarinnar í Lundúnum (LSE) á síðasta ári. Það gekk ekki eftir en hlutabréfamarkaðurinn festi sér tæpan 30 prósenta hlut í LSE á meðan yfirtökukapphlaupinu stóð. Var haft eftir Robert Greifeld, forstjóra Nasdaq, um miðjan síðasta mánuð að hann muni eftir mætti reyna að koma í veg fyrir að LSE geti stækkað með yfirtöku á öðrum kauphöllum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×