Viðskipti innlent

Ljúka yfirtökunni á Versacold

Í maílok tilkynnti Eimskip um kaup á fjórðungi hlutafjár í Versacold Income Fund og lagði um leið fram yfirtökutilboð í þá hluti sem eftir stóðu.
Í maílok tilkynnti Eimskip um kaup á fjórðungi hlutafjár í Versacold Income Fund og lagði um leið fram yfirtökutilboð í þá hluti sem eftir stóðu. Fréttablaðið/Vilhelm

Öll skilyrði yfirtökutilboðs Eimskips í kanadíska fyrirtækið Versacold Income Fund hafa verið uppfyllt samkvæmt tilkynningu Eimskip Holdings Inc., dótturfélags Hf. Eimskipafélags Íslands og stjórnar Versacold Income Fund til Kauphallar Íslands í gær. Þá hafa öll tilskilin leyfi fyrir yfirtökunni verið veitt. Yfirtökutilboðið í allt félagið sem var lagt fram í maílok hljóðaði upp á 67 milljarða króna.



Eimskip verður við yfirtökuna á Versacold langstærsta kæli- og frystigeymslufyrirtæki heims með starfsemi í 35 löndum í fimm heimsálfum.

„Eimskip hefur fengið samþykki fyrir kaupum á um það bil 54,1 milljón hlutum, sem samsvara 93 prósentum af útgefnum og útistandandi hlutum eða 87 prósentum af útgefnum og útistandandi hlutum að öllum hlutum meðtöldum,“ að því er fram kemur í tilkynningu félagsins.

Eimskip ætlar að eignast allt hlutafé í Versacold Income Fund og áætlar að því ljúki núna um mánaðamótin. „Versacold verður afskráð úr Kauphöllinni í Toronto eins fljótt og hægt er með tilliti til þeirra laga sem gilda þar um. Einnig hyggst Versacold sækja um leyfi til Fjármálaeftirlits Kanada um að losna undan reglum sem gilda um skráð fyrirtæki um leið og Eimskip eignast allt hlutafé í félaginu.“ Eimskip vann með KingSett Capital að fjármögnun kaupanna, sem verður með veði í fasteignum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×