Viðskipti erlent

Hart barist í Bretlandi

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

skrifar

Gengi hlutabréfa í bresku matvörukeðjunni Sainsbury hækkaði um tvö prósent í bresku kauphöllinni í Lundúnum (LSE) í byrjun vikunnar eftir að tveir fjárfestingasjóðir frá arabaríkinu Katar höfðu bæst í hóp þeirra sem hug hafa á að kaupa ráðandi hlut í keðjunni og yfirtaka rekstur hennar. Verði af viðskiptunum verða þetta stærstu fyrirtækjakaup í Evrópu.

Sjóðirnir, sem báðir eru í eigu Katarríkis, eru sagðir geta fjárfest fyrir allt að 40 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 2.700 milljarða íslenskra króna. Ekki liggur fyrir hversu stóra sneið af Sainsbury sjóðirnir hyggjast festa sér. Breska dagblaðið The Sunday Telegraph hafði eftir Hamad bin Jasim bin Jaber al-Thani, utanríkisráðherra Katar og forstjóra sjóðanna, að málið væri í skoðun enda verslanakeðjan áhugaverður kostur. Yrði af kaupum væri um langtímafjárfestingu að ræða.

Sjóðirnir eru sömuleiðis sagðir hafa skoðað kaupin í samstarfi við stjórn bresku verslanakeðjunnar Marks & Spencer. Stuart Rose, forstjóri Marks & Spencer, vísaði því á bug í breskum fjölmiðlum um helgina og sagði fyrirtækið hafa næga getu til að fara eitt í yfirtöku á Sainsbury.

Orðrómur hefur verið uppi í hálfan mánuð um að yfirtaka á Sainsbury væri í bígerð. Á meðal fjárfestanna eru bandaríski sjóðurinn Blackstone Group, fjárfestingarfélagið Kohlberg Kravis Roberts & Co. og CVC Capital Partners. Fjárfestasjóðirnir hafa allir tilkynnt formlega að þeir séu að skoða kaup í keðjunni. Yfirtökuáformin hafa hækkað gengi matvörukeðjunnar um heil 13 prósent og stendur það nú í um 514,25 pensum á hlut. Þetta jafngildir því að markaðsvirði Sainsbury standi í 8,7 milljörðum punda, jafnvirði ríflega 587 milljarða íslenskra króna.

Sainsbury-keðjan var stofnuð árið 1869 og rekur 769 verslanir víðs vegar um Bretland. Hún var stærsta matvörukeðja landsins allt fram til 1995 þegar samkeppni jókst á matvörumarkaði. Þótti keðjan bregðast seint við lækkandi vöruverði, með þeim afleiðingum að viðskiptavinum fækkaði. Hún situr nú í þriðja sæti yfir stærstu verslanakeðjur landsins á eftir Asda, sem er í eigu bandaríska verslanarisans Wal-Mart, og Tesco, sem trónað hefur á toppnum síðastliðin tólf ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×