Viðskipti erlent

Tesco skilar metári

Breska verslanakeðjan Tesco skilaði methagnaði í fyrra.
Breska verslanakeðjan Tesco skilaði methagnaði í fyrra.

Breska verslanakeðjan Tesco skilaði hagnaði upp á 2,55 milljarða punda, jafnvirði rúmra 332 milljarða íslenskra króna fyrir skatta og gjöld á síðasta ári. Þetta er 13 prósenta aukning á milli ára og enn ein metafkoman fyrir þessa stærstu stórmarkaðakeðju Bretlandseyja.

Velta Tesco nam 46,6 milljörðum punda, jafnvirði 6.071 milljarða króna, sem er 10,9 prósenta aukning á milli ára. Þetta jafngildir því að verslanir undir merki Tesco hafi tekið inn 4.800 pund, hvorki meira né minna en 625.392 íslenskar krónur, á hverri einustu mínútu á síðasta ári.

Tesco rekur 1.500 verslanir í Bretlandi en hefur síðustu misserin verið að opna verslanir á nýjum mörkuðum, svo sem í Kína. Auk þess er áætlað að opna verslanir í Bandaríkjunum.

Mestur hluti af hagnaði verslanakeðjunnar kemur hins vegar frá breska markaðnum. Stór hluti af aukningunni kemur frá vexti í netverslun og sölu á öðrum vörum en mat.

Tesco hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir einokunartilburði á breska matvörumarkaðnum. Hlutdeild verslanakeðjunnar í Bretlandi nemur 31,2 prósentum sem er meira en samanlögð markaðshlutdeild tveggja næststærstu verslanakeðja landsins, Asda og Sainsburys.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×