Viðskipti erlent

Greenspan gagnrýnir Bush fyrir óráðsíu

Alan Greenspan þjónaði alls sex forsetum Bandaríkjanna, ýmist sem ráðgjafi eða seðlabankastjóri Bandaríkjanna.
Alan Greenspan þjónaði alls sex forsetum Bandaríkjanna, ýmist sem ráðgjafi eða seðlabankastjóri Bandaríkjanna. MYND/AP

Alan Greespan, fyrrverandi seðlabankastjóri í Bandaríkjunum, vandar George Bush ekki kveðjurnar í nýrri bók um efnahagsmál. Sakar hann forsetann um óráðsíu við fjárlagagerð og að það hafi leitt til aukins halla á rekstri ríkissjóðs.

Bók Greenspans, sem nefnist In The Age of Turbulence: Adventures in a New World, kemur út í næstu viku en efni hennar hefur þegar verið lekið í fjölmiðla vestan hafs. Þar kemur meðal annars fram að Greenspan hafi ráðlagt forsetanum að beita neitunarvaldi gegn ýmsum frumvörpum sem lögð voru fram í stjórnartíð repúblikana á Bandaríkjaþingi en þau fólu í sér stjórnlaust fjáraustur að mati seðlabankastjórans fyrrverandi. Forsetinn hafi virt ráð hans að vettugi.

Greenspan, sem lýsir sjálfum sér sem frjálslyndum repúblikana, segir að Repúblikanaflokkurinn hafi átt skilið að tapa þingkosningunum á síðasta ári vegna frammistöðu sinnar í efnahagsmálum. Þá segir hann Bush-stjórnina hafa lagt litla áherslu alvöru umræður í efnahagsmálum og ekki hafa horft til langs tíma í þeim efnum.

Greenspan var seðlabankastjóri Bandaríkjanna í nítján ár en lét af embætti í fyrra. Hann var í hópi áhrifamestu manna í heimi á sviði efnahagsmála og nýtur enn mikillar virðingar. Hann er nú 81 árs og rekur ráðgjafarfyrirtæki ásamt því að vera heiðursráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×