Lífið

Rannsóknasetur stofnað

Dr. Ágúst Einarsson er frumkvöðull í rannsókn á umfangi menningar hér á landi í efnahagslegu tilliti.
Dr. Ágúst Einarsson er frumkvöðull í rannsókn á umfangi menningar hér á landi í efnahagslegu tilliti.

Samkeppnin eykst enn milli háskólanna í landinu og eru menn teknir að merkja sér ný svið: í gær var tilkynnt að Háskólinn á Bifröst, Íslenska óperan og Félag íslenskra hljómlistarmanna kæmi að stofnun Rannsóknaseturs í menningarfræðum við Háskólann á Bifröst.

Við setrið skulu stundaðar rannsóknir á sviðum sem tengjast listgreinum og öðrum sviðum menningar. Á Bifröst hafa menn um tveggja ára skeið staðið fyrir meistaranámi í menningar- og menntastjórnun með það að markmiði að þjálfa stjórnendur í mennta- og menningarlífi.

Á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan farið var af stað með þetta nám hefur fjölbreyttur hópur fólks úr menningar- og listalífi, skólakerfinu og fleiri sviðum samfélagsins stundað þetta nám á Bifröst og útskrifuðust fyrstu nemendurnir í fyrra. Menningarstarfsemi er veigamikill þáttur í íslensku samfélagi og skilar verulegum efnahagslegum og andlegum verðmætum og er tónlistin skýrt dæmi um slíkt. Hefur nýráðinn rektor á Bifröst, dr. Ágúst Einarsson, lagt sig fram um að kanna framlegð og umfang menningarstarfsemi og flutt um það erindi víða, síðast á aðalfundi Bandalags íslenskra listamanna í Borgarnesi um síðustu helgi. Frekari rannsóknir á þessum sviðum eru nauðsynlegar til að efla listgreinar enn frekar.

Stofnaðilar skuldbinda sig til að leggja setrinu lið eftir föngum, með ráðgjöf, aðstoð, kennslu eða á annan hátt. Segir í yfirlýsingu þeirra að rannsóknir skuli taka mið af íslenskum og erlendum aðstæðum og niðurstöður rannsókna skulu birtar á aðgengilegan hátt og vera grundvöllur umræðu um menningarmál í íslensku samfélagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.