Viðskipti innlent

Viðskipti hafin á rólegasta tíma

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Magne Arge forstjóri Atlantic Airways um það bil að taka við bjöllustreng Kauphallarbjöllunar úr hendi Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar, við lok viðskipta í gær.
Magne Arge forstjóri Atlantic Airways um það bil að taka við bjöllustreng Kauphallarbjöllunar úr hendi Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar, við lok viðskipta í gær. Fréttablaðið/Vilhelm
Gengi bréfa Atlantic Airways hækkaði um 0,6 prósent frá útboðsgengi á fyrsta degi viðskipta með bréfin í OMX kauphöll Íslands í gær.

Útboðsgengið var 261 dönsk króna á hlut, en lokagengi gærdagsins 262,5 danskar krónur, eftir 15 færslur. Dagurinn var raunar sá rólegast í Kauphöllinni á þessu ári, þar sem heildarvelta hlutabréfa nam ekki nema 1.650 milljónum króna. Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að velta hafi að meðaltali verið tæpir 11,2 milljarðar króna á dag það sem af er ári.

Félagið er tvítugt, stofnað í mars árið 1987.

Í upphafi var einungis flogið á einni leið milli Færeyja og Kaupmannahafnar á einu fél félagsins. Síðan hafa umsvif félagsins aukist nokkuð, en meginstarfsemin byggir á áætlunarflugi frá Færeyjum, leiguflugi í Evrópu og þyrlustarfsemi í Færeyjum og á Norðursjó. Félagið rekur nú sex flugvélar og þrjár þyrlur og er með höfuðstöðvar í Sørvág í Færeyjum. Starfsmenn eru 187.

Magne Arge, forstóri Atlantic Airways segir spennandi tíma framundan. „Með skráningu á markað koma ný tækifæri og um leið ný verkefni og skyldur. Slíkt er ávallt spennandi fyrir okkur sem störfum í viðskiptum. Sérstaklega þurfum við að venja okkur við að vera á hverjum degi komin undir dóm markaðarins á frammistöðu okkar.“ Magne segir félagið þó vel í stakk búið til að takast á við þessar nýju upplifanir. „Við höfum í mörg ár starfað í flugiðnaði og sá iðnaður er þannig, sér í lagi í Færeyjum, að við vitum að bæði getur verið von á þungskýjuðum dögum og sólríkum. Þá þekkum við vel allan óróleika í lofti.“

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, fagnaði líka skráningu Atlantic Airways í Kauphöllina hér. „Við erum þess fullviss að þessi „lending“ félagsins á verðbréfamarkaðnum geri því kleift að „hefja sig til flugs“ með glæsibrag í framtíðinni,“ sagði hann og kvað færeysk félög hafa verið í mikilli sókn í kjölfar einkavæðingar stjórnvalda. „Ég álít færeyska markaðinn orðinn það stóran að hann sé farinn að skipta máli fyrir færeyska hagkerfið og hefur verið mjög ánægulegt að horfa á þessa þróun.“ Þá segir hann samstarfið við Færeyingana hafa verið ánægjulegt og nálgun við vandamál svipuð og í Kauphöllinni hér, en hún snerist um að leysa mál fljótt og vel.

Atlantic Airways er 37. félagið sem er skráð á aðalmarkað Nordic Exchange á þessu ári og um leið fjórða færeyska félagið sem skráð er í Kauphöllina hér. Fyrr á þessu ári voru skráðir hér á markað Eik Banki og Føroya Banki, en olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum varð fyrst til árið 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×