Innlent

Vegaframkvæmdum upp á 6,6 milljarða króna flýtt

Ríkisstjórnin tilkynnti í morgun að hún ætlar að flýta framkvæmdum í vegagerð upp á 6,6 milljarða króna á næstu fjórum árum. Þetta er gert til að mótvægis við skerðingu á aflamarki á næsta fiskveiðiári.

Í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um skerðingu á aflamarki á næsta fiskveiðiári hefur hún ákveðið að flýta vegaframkvæmdum á ellefu stöðum á landinu. Alls á að setja 6,6 milljarða króna í vegaframkvæmdir umfram það sem þegar hefur verið ráðstafað í þennan málaflokk. Kristján Möller, samgönguráðherra, sagði á blaðamannafundi nú rétt fyrir fréttir að flýtiframkvæmdir myndu hefjast þegar á næsta ári.

Skipting á flýtifé verður þannig að á næsta ári verður varið röskum einum og hálfum milljarði, röskum tveimur milljörðum árið 2009 og hartnær þremur milljörðum árið 2010.

Framkvæmdirnar verða víða um land, en engar viðbótar framkvæmdir eru þó fyrirhugaðar á suð-austurlandi. Einna mikilvægastar eru vegabætur við Axarveg, sem valda mun mikill styttingu á Hringvegi og tengir Djúpavog betur við Hérað, auk vegabóta á norð- austurlandi með vegtengingu Raufarhafnar og Þórshafnar við hina nýju Hófskarðaleið.

Þá er vinnu við Norðfjarðargöng flýtt.

Á Vestfjörðum verður m.a. flýtt framkvæmdum í Þorskafirði og borun ganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verður jafnframt flýtt. Það er trú ríkisstjórnarinnar að framkvæmdir þessar leiði til langtímavaxtar og velmegunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×