Viðskipti innlent

Fyrstu lýðheilsufræðingarnir útskrifaðir

Lýðheilsufræðingar Jenný Ingudóttir, Ólöf Kristín Sívertsen og Birna Baldursdóttir eru meðal fimmtán nýútskrifaðra lýðheilsufræðinga frá Háskólanum í Reykjavík.
Lýðheilsufræðingar Jenný Ingudóttir, Ólöf Kristín Sívertsen og Birna Baldursdóttir eru meðal fimmtán nýútskrifaðra lýðheilsufræðinga frá Háskólanum í Reykjavík. Hrönn
Á laugardaginn voru lýðheilsufræðingar í fyrsta sinn útskrifaðir hér á landi. Sautján manna hópur hélt þá upp á lok tveggja ára meistaranáms við Háskólann Í Reykjavík. Námið er þverfaglegt eins og samsetning hópsins ber með sér. Innan hans er meðal annars að finna lækni, hjúkrunarfræðing, sjúkraþjálfa, líffræðing, kennara, félagsfræðing og viðskiptafræðing. Hlutverk lýðheilsufræðinga er á sama hátt víðtækt. Það er ekki síður göfugt: „Að hafa áhrif á samfélagið og breyta því til batnaðar þannig að allir hafi jafna möguleika á að lifa heilbrigðu lífi.“ Ætla að valda straumhvörfum

Lýðheilsufræði er ekki ný af nálinni. Hún hefur verið kennd í háskólum á Norðurlöndunum undanfarin tuttugu ár. Þá byggja Bandaríkin á langri sögu í rannsóknum á þessu sviði. Þótt hún hafi farið lágt á Íslandi er hér fyrir þó nokkuð stór hópur fólks sem hefur sótt lýðheilsumenntun til annarra landa.

Hópurinn sem nú var að útskrifast frá HR er hins vegar fyrsti stóri hópurinn sem hlýtur menntunina hér á landi og útskrifast á sama tíma. Þær Birna Baldursdóttir, Jenný Ingudóttir og Ólöf Kristín Sívertsen eru þeirra á meðal. Þær segja hópinn ætla að valda straumhvörfum. Allar forsendur séu fyrir hendi nú til að mynda nauðsynlegan slagkraft til að koma hugmyndafræðinni á kortið. Að þeirra sögn er Ísland kjörstaður til að ná árangri. Smæð þjóðfélagsins geti hjálpað til þar sem raunverulega er hægt að ná til allra í ákveðnum hópi. Nokkuð sem ómögulegt gæti reynst annars staðar.

Snertir á flestum sviðum samfélags

Hugtakið lýðheilsa grundvallast á samfélagslegri og sameiginlegri ábyrgð á að bæta heilbrigði, lengja líf og auka lífsgæði fólks. Hugmyndin er því mjög víðtæk og teygir sig raunar inn á flestöll svið samfélagsins. Hlutverk lýðheilsufræðinga er að skilgreina vandamál og fara yfir hvað getur valdið þeim. Út frá því eru settar í gang aðgerðir, þeim fylgt eftir og skoðað hverju þær skila.

Margir myndu tengja lýðheilsufræði beint við heilbrigðisgeirann. Þremenningarnir segja þau hins vegar alls ekki takmarkast við hann. Fræðin séu þverfagleg og snerti á félagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum þáttum. Þær segja lýðheilsufræðing til að mynda eiga fullt erindi inn í fyrirtæki, ekki síður en til sveitarfélaga eða stofnana. Lýðheilsufræðingur gæti tekið á starfsmanna- og mannauðsmálum til dæmis. Hann myndi hafa það að aðalmarkmiði að efla heilsu og bæta líðan starfsmanna. Rannsóknir sýna að kostnaður við ráðningu nýs starfsmanns er gríðarlegur. Í skýrslu um mannauðsstjórnun á Íslandi, sem unnin var af sérfræðingum innan Háskólans í Reykjavík, kemur fram að starfsmannavelta hér á landi var þrettán prósent á ársgrundvelli árið 2005. Að bæta heilsu og líðan starfsmanna skilar bæði í meiri afköstum og minni starfsmannaveltu, sem vert er að sækjast eftir.

Ýmislegt á prjónunum

Þrátt fyrir að blekið sé rétt að þorna á prófskírteinum lýðheilsufræðinganna eru þegar ýmis plön komin á prjóna þeirra. Í vor var Félag íslenskra lýðheilsufræðinga stofnað. Er vonin að ná til allra lýðheilsufræðinga, bæði þeirra sem fyrir voru og hinna sem útskrifuðust nú. Þær Birna, Ólöf Kristín og Jenný eru sammála um mikilvægi þess að koma upp öflugu tengslaneti þeirra á milli, sama hvaðan menntunin er komin, enda er samvinna lykill að árangri. Þá má ráða af orðum þremenninganna að þess verði ekki langt að bíða uns einhver þeirra taki sig saman og stofni ráðgjafarfyrirtæki með sérstaka áherslu á lýðheilsutengd málefni.

Hinn 21. september býður útskriftarhópurinn til hádegisverðarfundar þar sem hugtakið lýðheilsa og námið við Háskólann í Reykjavík verður kynnt ásamt lokaverkefnum nemenda. Boðið verður upp á léttar veitingar. Það er um að gera fyrir stjórnendur fyrirtækja og aðra áhugasama að skjótast upp í HR í hádeginu og kynnast þeim ávinningi sem lýðheilsufræðingar geta skapað fyrirtækjum og stofnunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×