Viðskipti erlent

Veðurtjón á eftir að tvöfaldast

Tjón af völdum veðurfars í Skandinavíu kemur til með að tvöfaldast fyrir lok 21. aldar, samkvæmt því sem fram kemur á ráðstefnunni Nordic Risk & Insurance Summit (NORIS) sem hófst í Stokkhólmi í gær. Ráðstefnunni, sem er á vegum helstu norrænu vátryggingarfélaganna, lýkur í dag.

Swiss Re, stærsta endurtryggingafélag heims og í fremstu röð áhættumatsfyrirtækja, varar við afleiðingum loftslagsbreytinga á Norðurlöndum til lengri tíma litið og segir vetrarstormana Anatol, Gudrun og Per aðeins vera fyrirboða um illviðrasamari tíð í Skandinavíu. Verra veður segir félagið svo að muni leiða til tvöföldunar á bótakröfum vegna tjóns af völdum veðurs fyrir lok þessarar aldar.

Með þetta í huga ræða sérfræðingar fyrirtækisins á ráðstefnunni hvernig beita megi öðrum aðferðum við áhættudreifingu en nú er gert, svo sem stóráfallaskuldabréfum, til að takast á við efnahagslegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Haft er eftir Luca Albertini, framkvæmdastjóra fjármálastýringar og ráðgjafarþjónustu Swiss Re að markaður fyrir tryggingartengd skuldabréf muni að öllum líkindum vaxa hratt á komandi árum.

„Swiss Re áætlar að vetrarstormar í Evrópu kosti nú tryggingafélögin árlega um 2,6 milljarða evra [nærri 230 milljarða króna]. Ef gert er ráð fyrir einfaldri línulegri aukningu hækkar þessi tala um á að giska 11 milljónir evra [tæpan milljarð króna] árlega. Miðað við áætlaðar árlegar tjónakröfur má því ætla að kostnaður vegna tryggðra tjóna í Skandinavíu hafi tvöfaldast fyrir næstu aldamót,“ segir í tilkynningu félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×