Viðskipti innlent

Einfalda þarf lagaumhverfi sparisjóða

Björgvin G. Sigurðsson. Viðskiptaráðherra hefur sett á fót nefnd sem ætlað er að fara yfir lagaumhverfi sparisjóðanna.
Björgvin G. Sigurðsson. Viðskiptaráðherra hefur sett á fót nefnd sem ætlað er að fara yfir lagaumhverfi sparisjóðanna.

Nýrri nefnd sem Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur sett á stofn er ætlað er að fara yfir lagaumhverfi sparisjóðanna og gera tillögur til breytinga. Björgvin segir nauðsynlegt að einfalda ýmislegt í þeim kafla löggjafarinnar um fjármála­fyrirtæki sem lýtur að sparisjóðunum. Greiða þurfi þeim leið til breytinga, þegar kemur að hlutafélagavæðingu, verslun með stofnbréf, útgáfu nýs stofnfjár og fleira.

Þessu til viðbótar segir hann að standa þurfi vörð um sjálfseignasjóði sparisjóðanna og tryggja að notkun á fé úr þeim verði skilyrt við upprunasvæði. „Markmiðið er að standa vörð um sjóðina, efla þá sem fjármálastofnanir en gera þeim kleift að breytast eins og stjórnendur og eigendur þeirra telja að þurfi að gera.“

Árið 2002 var ráðist í miklar breytingar á lagaumhverfi sparisjóðanna. Þá voru samþykktar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem gerðu sparisjóðum kleift að breyta félagaformi sínu í hlutafélög. Síðan hefur aðeins SPRON samþykkt stofnun hlutafélags um starfsemi sjóðsins.

Miðað er við að nefndin ljúki störfum fyrir 1. júní á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×