Viðskipti innlent

Marel stærst í heimi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í framleiðslusal Marels Theo Hoen, forstjóri SFS, kom til landsins í gær, en í dag kynna félögin frekar fyrirhugaðan samruna. Hann er hér á milli þeirra Árna Odds Þórðarsonar, stjórnarformanns Marels, og Harðar Arnarsonar forstjóra í höfuðstöðvum félagsins í Garðabæ.
Í framleiðslusal Marels Theo Hoen, forstjóri SFS, kom til landsins í gær, en í dag kynna félögin frekar fyrirhugaðan samruna. Hann er hér á milli þeirra Árna Odds Þórðarsonar, stjórnarformanns Marels, og Harðar Arnarsonar forstjóra í höfuðstöðvum félagsins í Garðabæ. Fréttablaðið/Völundur
Marel Food Systems kaupir Stork Food Systems (SFS) í Hollandi á nálægt því 38 milljarða króna. Við samrunann verður til stærsta matvælavinnsluvélafyrirtæki heims.

Umfang og velta Marels tvöfaldast við kaupin. Gert er ráð fyrir að kaupin verði endanlega frágengin í febrúar á næsta ári, að fengnu samþykki samkeppnisyfirvalda og lokinni yfirtöku London Acquisition á því sem eftir stendur af Stork-samstæðunni í Hollandi. Tilkynnt var um samninginn í gær.

Marel Food Systems hefur náð samkomulagi við Stork N.V. í Hollandi um kaup á matvælavinnsluvélafyrirtækinu Stork Food Systems (SFS). Kaupverðið er 415 milljónir evra, eða nálægt 38 milljörðum íslenskra króna. Með kaupunum tvöfaldast velta og umfang Marels auk þess sem grundvöllur fyrir áframhaldandi innri vöxt og arðsemi er sagður hafa verið styrktur.

Fyrstu viðræður um mögulegan samruna félaganna hófust í nóvember 2005. Fjármögnun kaupanna á SFS er að fullu tryggð með sölu hlutabréfa í LME Eignarhaldsfélagi, útgáfu hlutabréfa, sem Landsbanki hefur sölutryggt, og með langtímalánsfjármögnun.

Hörður Arnarson, forstjóri Marel Food Systems, er hæstánægður með áfangann.

„Við erum að ná því markmiði sem við settum okkur í byrjun síðasta árs að verða eitt af leiðandi fyrirtækjunum á markaðnum. Það sem við ætluðum að gera á þremur til fimm árum gerum við á tveimur árum og göngum heldur lengra en við ætluðum,“ segir hann.

Marel þekkir vel til Stork Food Systems og hefur átt í samstarfi við fyrirtækið í nærri áratug.

„Þetta er eitt af best reknu fyrirtækjunum á markaði og hentar fyrirtækjunum mjög vel að koma saman,“ segir hann og kveður fyrirtækjamenningu þeirra svipaða. Þá eru samlegðaráhrif mikil af kaupunum þar sem starfsmi félaganna og vörulínur skarast ekki.

Samþættingarferli fyrirtækjanna hefst svo að fengnu samþykki samkeppnisyfirvalda fyrir kaupunum, en það telur Hörður að gæti orðið í febrúarbyrjun næstkomandi. „Sú samþætting verður mun einfaldari en í fyrri yfirtökum,“ segir hann, en þar kemur til að vörulínur fyrirtækjanna bæta hvor aðra upp og að vegna samstarfsins þekkist menn vel.

Eftir samrunann nemur markaðshlutdeild Marel og Stork Food Systems um það bil sextán prósentum. Næsta félag á eftir er með um 10 prósenta hlutdeild, að sögn Árna Odds Þórðarsonar, stjórnarformanns Marels. Þar á bæ segir hann áherslun nú verða lagða á samrunaferli og innri vöxt í stað fyrirtækjakaupa.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hf. var ráðgjafi Marel og Allen & Overy í Amsterdam veitti lögfræðilega ráðgjöf um kaup á SFS. Þrír fyrirvarar eru við kaupin á SFS, en þeir snúa að því að fyrirhugað yfirtökutilboð London Acquisition N.V. um að kaupa alla hluti í Stork N.V. verði skilyrðislaust, að umsögn verkamannaráðs Stork (Stork Works Council) og samþykki samkeppnisyfirvalda. Þar til öllum formlegum skilyrðum samningsins hefur verið fullnægt heldur hvort fyrirtæki um sig áfram sjálfstæðum og óbreyttum rekstri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×