Innlent

Gætu orðið mistök að hafa keypt gamalt skip

Kristján Möller samgönguráðherra segir að skoðun á Grímseyjarferjumálinu gæti leitt í ljós að mistök hafi verið að kaupa gamalt skip. Hann skoðaði ástand skipsins nú í morgun í Hafnarfjarðarhöfn.

Eins og margir muna var gamalt írskt skip keypt til að leysa gömlu Grímseyjarferjuna af hólmi. Endurbætur hafa tekið lengri tíma en áætlað var og farið langt fram úr fjárhagsáætlun. Skipið sjálft kostaði 102 miljónir króna og heildarkostnaður með endurbótum var áætlaður um 270 milljónir.

Kristján L. Möller, nýr samgönguráðherra, gagnrýndi harðlega ferjumálið í kosningabaráttunni og sagði að kostnaðurinn við endurbætur á ferjunni gæti farið upp í allt að 600 milljónir króna eða jafnvel meira. Kristján segir nú að honum hafi verið tjáð nú að kostnaðurinn sé að skríða í 400 milljónir og hann óttist að upphæðin verði enn hærri.

Aðspurður hvort mistök hafi verið gerð í málinu segir Kristján að hann hafi ekki mikið farið aftur í frumákvörðunina í málinu, þ.e. að Vegagerðinni hafi verið ráðlagt að kaupa skipið. Honum sýnist þó sem ekki hafi verið horft til enda málsins þegar þetta gamla skip hafi verið keypt. Þegar upp verði staðið geti það hafa verið mistök að kaupa skipið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×