Viðskipti erlent

Smásöluverslun jókst vestanhafs

Aukning í smásöluverslun í Bandaríkjunum sýnir að neytendur halda ekki að sér höndum þrátt fyrir þrengingar á fasteignalána- og fjármálamarkaði líkt og óttast var.
Aukning í smásöluverslun í Bandaríkjunum sýnir að neytendur halda ekki að sér höndum þrátt fyrir þrengingar á fasteignalána- og fjármálamarkaði líkt og óttast var. MYND/AP

Smásöluverslun í Bandaríkjunum jókst um 0,3 prósent á milli mánaða í júlí. Sé sala á bílum og eldsneyti undanskilin úr tölunum nemur hækkunin 0,4 prósentum, samkvæmt nýútkomnum tölum bandaríska viðskiptaráðuneytisins. Þetta er 0,1 prósentustigi meira en greinendur höfðu gert ráð fyrir. Þá er þetta talsverður bati frá mánuðinum á undan en þá dróst smásöluverslun saman um 0,7 prósent á milli mánaða.

Tölur um smásöluverslun eru lykilvísir í bandarískum hagtölum en þær þykja einkar góð vísbending um horfurnar í bandarísku efnahagslífi á næstu mánuðum. Tölurnar nú sýna að neytendur eru bjartsýnir þrátt fyrir hræringar á helstu mörkuðum.

Bandaríska fréttaveitan Bloomberg hefur eftir greinanda hjá Wachovia, fjórða stærsta banka Bandaríkjanna, að fjárfestar, sem höfðu áhyggjur af því að samdráttur á fasteignalánamarkaði vestanhafs hefði áhrif á neytendur, geti nú andað léttar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×