Viðskipti erlent

Vinna að jafnvægi á fjármálamarkaði

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar
Bloomberg segir líkur á að Seðlabanki Bandaríkjanna muni grípa til mótvægisaðgerða gegn samdætti á fasteignalánamarkaði vestanhafs.
Bloomberg segir líkur á að Seðlabanki Bandaríkjanna muni grípa til mótvægisaðgerða gegn samdætti á fasteignalánamarkaði vestanhafs. MYND/AP

Evrópski seðlabankinn opnaði pyngjur sínar á ný í vikubyrjun og veitti fjármálastofnunum aðgang að fjármagni á fjögurra prósenta vöxtum til að mýkja áhrif skellsins á hlutabréfamarkaði á föstudag og koma í veg fyrir að hann endurtæki sig. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem seðlabankinn veitir vilyrði fyrir lánum sem þessum. Fjöldi annarra banka hefur gripið til sömu ráða, svo sem seðlabanki Bandaríkjanna, Ástralíu og Japans auk þess sem seðlabankar í fleiri Asíulöndum ætla að hugsa málin. Heildarvirði lánanna nemur 289,7 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði rúmra nítján þúsund milljarða íslenskra króna sem bankarnir geta sótt sér til seðlabankanna. Bankastjórar allra banka segja að með þessu hafi jafnvægi skapast á fjármálamarkaði.

Skýringin á niðursveiflunni á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði á föstudag í síðustu viku liggur í miklum samdrætti á fasteignalánamarkaði í Bandaríkjunum, sem sérhæfir sig í útlánum til einstaklinga með lélegt lánshæfi. Samdráttarins varð fyrst vart á vordögum vestra þegar vanskil á fasteignalánamarkaði jukust mikið. Hann einskorðaðist hins vegar við fjármálastofnanirnar á þessum sérstaka markaði. Þrátt fyrir væringar á fjármálamörkuðum á vordögum ákvað Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, að verða ekki við óskum uggandi fjárfesta og koma til móts við þrengingarnar með lækkun stýrivaxta.

Fréttaveitan Bloomberg hefur eftir sérfræðingi hjá Citigroup í Lundúnum í Bretlandi, að þótt ástandið hafi náð jafnvægi þá gegni öðru máli um viðhorf manna. „Óttinn mun líða hjá hægt og bítandi,“ segir sérfræðingurinn í samtali við Bloom­berg, sem gagnrýnir þá Bernanke, Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og fleiri ráðamenn í þar í landi sem gerðu fátt til að koma í veg fyrir skellinn með tilhlýðilegum aðgerðum.

Að mati Bloomberg hefði verið hægt að koma í veg fyrir viðlíka titring og á föstudaginn með lækkun stýrivaxta en slíkt hefði bætt úr lausafjárstöðu fjármálastofnana og lækkað vaxtabyrði lántaka.

Bloomberg segist að einmitt nú verði breyting á til að vega upp á móti niðursveiflunni. Þannig séu líkur á að Seðlabanki Evrópu hækki stýrivexti sína um 25 punkta á næsta fundi sínum í næsta mánuði og muni þeir standa í 4,25 prósentum út árið. Óvíst er um aðgerðir annarra banka. Mestu munar þó um ákvörðun bandaríska seðlabankans en Bloomberg telur bankann koma til móts við erfiðleikana á fjármagnsmarkaði með 25 punkta stýrivaxtalækkun um miðjan september. Verði það raunin verða Bandaríkin þau fyrstu af G-7 löndunum, sjö stærstu iðnríkjum heims, til að lækka stýrivexti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×