Innlent

Nemendum á öllum skólastigum fjölgar

MYND/VG

Rúmlega 16 þúsund fleiri nemendur stunduðu nám á öllum skólastigum landsins í vetur en fyrir tíu árum samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Fleiri konur stunda nám á framhalds- og háskólastigi en karlar og þá dregur úr skólasókn 16 ára ungmenna í framhaldsskólum milli ára.

Samkvæmt samantekt Hagstofunnar á skólasókn í framhaldsskólum og háskólum haustið 2006 voru nemendur á öllum skólastigum rúmlega 102 þúsund í vetur. Árið 1997 voru þeir rétt rúmlega 86 þúsund talsins og hefur því fjölgað um 16 þúsund á tíu árum.

Konur eru 53,2 prósent nemenda á háskólastigi og 62,3 prósent nemenda á háskólastigi. Þá sýnir samantektin að skólasókn 16 ára ungmenna hefur lækkað um eitt prósentustig frá því í fyrra. Alls sækja 94 prósent 16 ára stúlkna framhaldsskóla en hjá piltum er hlutfallið 91 prósent. Alls staðar á landinu er skólasókn 90 prósent eða hærri en lægst er hún á Vesturlandi, 90 prósent, en hæst á Norðurlandi vestra, 96 prósent.

Þá kemur einnig fram í samantekt Hagstofunnar að íslenskir námsmenn erlendis voru 2.308 síðasta haust. Tæplega helmingur þeirra voru við nám í Danmörku, 1.109, en næst fjölmennastir eru íslenskir námsmenn í Bandaríkjunum, 304, og í Englandi 223 talsins. Frá 1999 hafa íslenskir námsmenn erlendis verið skráðir til náms í 49 löndum í öllum heimsálfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×