Viðskipti innlent

Erlendar eignir lífeyrissjóða fari í helming heildareigna

Eggert Þór Aðalsteinsson  skrifar

Lífeyrissjóðirnir hafa vaxið hlutfallslega hraðar í erlendum eignum en þeim innlendu, samfara þeirri gríðarlegu aukningu sem orðið hefur á hreinum eignum þeirra á liðnum árum, einkum á síðustu tveimur árum. Lífeyrissjóðirnir, sem hafa fjárfest erlendis frá árinu 1994, hafa 42-faldað erlendar eignir sínar á einum áratug. Í lok nóvember voru þær komnar í rúma fjögur hundruð milljarða króna, sem svarar til rúmra 28 prósenta af hreinum eignum lífeyrissjóðanna. Til samanburðar voru erlendar eignir aðeins þrjú prósent af heildareignum í ársbyrjun 1997.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, býst við stöðugri aukningu erlendra eigna og sér það í hendi sér að á næsta áratug geti þær orðið allt að helmingur af heildareignum. Það fari þó eftir markaðsaðstæðum hverju sinni hversu mikið verður fjárfest erlendis. Samkvæmt reglum um lífeyrissjóði er þeim heimilt að eiga helming í erlendum eignum.

„Lífeyrissjóðirnir eru markvisst að auka erlendar eignir og munu gera það áfram á næstu árum. Fyrir því eru ýmsar ástæður, meðal annars sú gamla og góða ástæða að það borgar sig ekki að vera með öll eggin í sömu körfunni þegar illa árar.“ Til fróðleiks bendir Hrafn á að ef lífeyrissjóðir beita gengisvörnum geti í raun og veru allar eignir verið erlendis, en slíkt sé auðvitað ekki raunhæft.

Hrafn tekur ennfremur fram að mat á erlendum eignum fari einnig eftir því hvernig krónan þróist eins og sást berlega á síðasta ári þegar erlendu eignirnar jukust verulega með lækkun á gengi krónunnar. Erlendar eignir voru 24 prósent af heildareignum í ársbyrjun 2006 en voru komnar í 28 prósent í lok nóvember eins og áður sagði.

Aðspurður um hvar lífeyrissjóðirnir hafa verið að fjárfesta erlendis segir hann að þeir hafi fyrst og fremst fjárfest í alþjóðlegum hlutabréfasjóðum. Slíkar eignir námu 238 milljörðum í lok nóvember. „Síðan hafa menn reynt fyrir sér bæði á skuldabréfamarkaði og ekki síður í óhefðbundnum fjárfestingum á síðustu misserum, aðallega framtakssjóðum [private equity], sem hafa skilað góðri ávöxtun fram til þessa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×