Innlent

Meira en tvöfaldur löglegur hraði á þjóðvegunum

Ökumenn hafa orðið uppvísir af því að aka á meira en tvöföldum hámarkshraða á þjóðvegum landsins á síðustu dögum. Kristján Ólafur Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn í höfuðborginni, segir að lögreglan hafi þungar áhyggjur af þessu.

 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði erlendan ferðamann í morgun á nálega 180 km hraða við Rauðavatn. Þetta var á svipuðum slóðum og lögreglan setti upp vegartálma í nótt til að reyna að stöðva tvo bifhjólamenn sem talið er að hafi ekið á yfir 200 kílómetra hraða á Hellisheiði. Þeir voru mældir á nálega 180 km hraða á Kambabrún.

 

Lögreglan á Seyðisfirði og Eskifirði hafði afskipti af ungum ökumanni um helgina sem mældist á 149 km hraða á Fagradal. Þar er hámarkshraði 90 kílómetrar á klukkustund.

 

Þetta er einungis fáein dæmi um afskipti lögreglunnar á síðustu dögum af ökumönnum sem hafa gerst brotlegir við lög og ekið á hraða langt umfram það sem lög leyfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×