Lífið

Toggi bókaður fram að jólum

Þorgrímur Þráinsson hefur verið á fleygiferð um landið og lesið upp úr væntanlegri bók sinni. fréttablaðið/hörður
Þorgrímur Þráinsson hefur verið á fleygiferð um landið og lesið upp úr væntanlegri bók sinni. fréttablaðið/hörður
„Ég er bara með nokkuð stífa dagskrá fram að jólum,“ segir Þorgrímur Þráinsson en óhætt er að segja að mikil spenna ríki fyrir bókinni hans, Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama: Skemmtilegra kynlíf , fallegri samskipti, meira sjálfsöryggi. Fjölmörg félagasamtök hafa haft samband við Þorgrím síðan Fréttablaðið birti frétt um að hann væri að skrifa umrædda bók og hafa beðið rithöfundinn um að lesa upp úr bókinni og miðla af reynslu sinni.

Þorgrímur var staddur á Akureyri þegar Fréttablaðið náði tali af honum en þar var hann að fara að lesa upp á kvennakvöldi fyrir norðankonur. „Þetta hafa verið ýmsir hópar; foreldrafélög og rótarýhópar og allt þar á milli. Og það hefur yfirleitt verið mikil stemning, gleði og fjör.“

Þorgrímur segir að þessi athygli sem bókin og hann hafi fengið hafi komið honum skemmtilega á óvart. Og þó. „Þetta sýnir bara svart á hvítu hversu mikil þörf var fyrir opinni umræðu um samskipti kynjanna,“ segir rithöfundurinn og bætir því við að kynbræður hans hafi ekki verið alveg jafn opnir fyrir upplestrinum og konurnar. „Nei, þeir virðast vera eitthvað aðeins viðkvæmari og maður þarf að fara aðeins aðrar leiðir að þeim,“ segir Þorgrímur sem fær fyrsta eintakið af bókinni í hendurnar um miðja næsta viku.

- fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.