Fastir pennar

Margt að ugga

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Í sumar heyrðist stundum merkilegt lag í útvarpinu með hljómsveitinni Hjaltalín. Maður tók strax eftir því út af sérkennilegum hljómi, grípandi laglínu og knýjandi takti. Það heitir Goodbye July/Margt að ugga og ég veit ekkert um hvað það er. En þegar ég heyrði það fannst mér það vera vitnisburður um stöðu íslenskunnar. Tvítyngd list

Það er sungið á ensku, alþjóðamáli poppsins, lýtalausri, áreynslulausri, hreimlausri, sérkennalausri - svona ensku sem hljómar eins og nýlegur bíll. Og ég veit ekkert um hvað það er: maður tekur ekki eftir neinum orðum í textanum sem sunginn er af ungum karlmanni nema þessum: „goodbye July/ my name is Elaine" - eða „vertu bless júlí, Elín heiti ég". Svo er lagið búið. En þá kemur eins og eftirmáli: óumræðilega tregafull kvenrödd syngur við undurblíðar strengjastrokur hina kunnu vísu Þórðar Magnússonar frá Strjúgi: „Við skulum ekki hafa hátt / hér er margt að ugga / ég hef heyrt í alla nátt / andardrátt á glugga."

En vísan er hins vegar ekki sungin sem samhangandi merkingarheild heldur eru línurnar úr henni sungnar á stangli ein og ein, eins og dróttkvæði eða púslumynd. Það er eins og merking vísunnar hafi splundrast og orðin úr henni svífi um stök og rótlaus í dapurlegu tómarúmi.

Með öðrum orðum: íslenskan er eins og exótískt skraut í laginu - hún er effekt. Vísnahefðin íslenska er hér eins og lopapeysumunstur á háskólabol. Hún er ekki merkingarbær í sjálfri sér.

Svona er þetta. Það eru meira en fjörutíu ár síðan íslenskir popparar fóru að reyna fyrst að syngja á ensku og lengi var útkoman bæði álappaleg og merkingarlaus. Þannig er það ekki lengur. Lagið Goodbye July/Margt að ugga er dæmi um þá tvítyngdu list sem kann að vera skammt undan.

Enginn afsláttur?

Svona er þetta. Í Mogganum í gær var samantekt á umræðunni sem vaknaði í kjölfar eindreginnar kröfu viðskiptafræðinga á öllum vígstöðvum, frá Versló og til varaformanns Samfylkingarinnar, um að enskan fái viðurkenndari sess og meira lögmæti á Íslandi en verið hefur. Þar er m.a. talað við Svöfu Grönfeldt rektor HR, en sá skóli hefur verið í fararbroddi þessarar herferðar þar sem virðist gert ráð fyrir því að „þarfir viðskiptalífsins“ séu á einhvern hátt mikilvægari en þarfir þjóðlífsins almennt. Þar ræðir Svafa um nauðsyn þess að gera ensku hærra undir höfði en er líka ræktarsöm við gamla málið: „við munum ekki gefa neinn afslátt á íslenzkunni,“ er þar haft eftir henni, með zetu og alles. Sannkölluð málræktarkona. En hvaða afsláttartal er þetta? Er íslensk tunga þá varningur og til sölu – en aðeins gegn fullu verði? Svöfu er náttúrlega tamt að grípa til viðmiða úr heimi viðskipta. Og henni þykir ef til vill vænt um íslenskuna eins og skattholið hennar langömmu. Í hennar huga er íslenskan gersemi sem aldrei verður veittur afsláttur á, djásn og dýr eftir því. Samkvæmt þessum hugsunarhætti er íslenskan fínerí; viðhafnarmál, helst geymd í bankahólfi.

En mætti ekki allt eins segja að það eigi einmitt sífellt að gefa afslátt á íslenskunni – sífellt að vera með tilboð í gangi? Sé íslenskan á markaði – á hún þá ekki að vera sífellt föl? Sífellt sveigjanleg? Sífellt opin fyrir orðum eins og „að dánlóda“ og „gemsi“? Sífellt að bjóða sig: sími og tölva eru ekki bara miklu smartari orð en telefónn og kompúter heldur líka miklu snaggaralegri, maður sparar tíma þegar maður segir þau... Og nýyrðabauk Íslendinga – sú árátta að smíða orð um fyrirbærin í heiminum jafnóðum og þau verða til – hefur áreiðanlega hjálpað þeim að átta sig á vélum heimsins. Nýyrði er tilraun til að fanga kjarna fyrirbærisins í eitt orð, og þar með ná valdi á því, vegna þess að áður en þú getur búið til orð um það verðurðu að skilja það. Endurnýjunarmáttur íslenskunnar á 20. öldinni reyndist miklu meiri en fólk óraði fyrir: málið er svo ótrúlega frjótt; íslenskan reyndist furðu sveigjanlegt tungumál og yfirgripsmikið og hefur til þessa lagað sig að nýjum og nýjum veruleika fyrirhafnarlítið.

Hér er margt að ugga. Þegar tungumál hverfur þá hverfur með því heill heimur, hugsunarháttur, horf við veruleikanum og sögunni, verklag, heil siðmenning – auðlegð. Heimurinn verður fátækari og mannkynið ofurlítið heimskara.

Viðskiptafræðingarnir mega svo sem tala sína businessenglish ef þeir aðhyllast svo fábrotna tjáningu en ef þeir vilja vera með í samfélaginu og halda áfram að njóta ávaxta þess þá verða þeir að tala íslensku við okkur hin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×